Hærri framlög til almannatrygginga – fjölgun lífeyrisþega

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Arnþór

Í minnisblaði sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í dag í ríkisstjórn um framlög til almannatrygginga (að frátöldum atvinnuleysisbótum) kemur fram að þau hafa nær tvöfaldast frá árinu 2013 miðað við verðlag hvers árs og nema nú 642 þúsund krónum á hvern landsmann aldrinum 18-67 ára.

Greint er frá málinu í tilkynningu á vef ráðuneytisins.

Umfang samneyslu ríkissjóðs (þ.e. launaútgjöld, kaup á vöru og þjónustu og afskriftir að frádreginni sölu á vöru og þjónustu) hefur að meðaltali numið um 12% af vergri landsframleiðslu (VLF) frá árinu 1998 og hefur samneyslan þannig að jafnaði haldið í við vöxt hagkerfisins. Til samanburðar er áætlað að umfang tilfærslukerfa og fjárframlaga, að frátöldum atvinnuleysisbótum, verði 14,6% af VLF árin 2018-2025. Þetta er að meðaltali 2% hærra en umfangið var á árinu 1998,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir að í ljósi tekjufalls sem ríkissjóður stendur frammi fyrir vegna heimsfaraldurs kórónuveiru muni hlutfall framlaga almannatrygginga að óbreyttu nema tæpum fjórðungi tekna ríkissjóðs af skatttekjum og tryggingagjaldi á næsta ári í stað 14-15% áður.

Ljóst sé að svo hraður vöxtur þessara tilfærsluútgjalda sé ekki sjálfbær til lengri tíma litið og muni að óbreyttu ryðja frá sér framlögum til annarra tilfærslukerfa, opinberrar þjónustu eða fjárfestingar á vegum ríkisins.

Helsta skýringin á hærri framlögum til almannatrygginga er fjölgun lífeyrisþega og hækkun bóta sem leiddi m.a. af umtalsverðum breytingum sem gerðar voru á almannatryggingakerfinu og tóku gildi í upphafi árs 2017. Þá voru bótaflokkar ellilífeyris sameinaðir, almennt frítekjumark innleitt og bætur hækkaðar. Sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega var innleitt 2018,“ segir í tilkynningunni. Enn fremur hafi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum fjölgað síðustu árin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert