Skoraði tíu mörk í þriðja leiknum í röð

Hákon Daði Styrmisson í leik með ÍBV á síðasta tímabili.
Hákon Daði Styrmisson í leik með ÍBV á síðasta tímabili. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hákon Daði Styrmisson skoraði tíu mörk fyrir Gummersbach í þriðja leiknum í röð þegar liðið vann gífurlega öruggan 28:18 sigur gegn Dormagen í þýsku B-deildinni í handknattleik karla í dag.

Eyjamaðurinn Hákon Daði hefur heldur betur fundið fjölina í síðustu leikjum eftir að hafa farið nokkuð rólega af stað í deildinni.

Hann skoraði þrjú mörk í fyrsta leik sínum, ekkert í öðrum leiknum en hefur svo sem áður segir skorað tíu mörk í þremur leikjum í röð.

Af tíu mörkum Hákons Daða í dag komu þrjú af vítalínunni.

Elliði Snær Viðarsson, liðsfélagi hans og Eyjamaður einnig, skoraði tvö mörk og lagði upp önnur tvö í leiknum í dag.

Gummersbach hefur farið óaðfinnanlega af stað þetta tímabilið og er búið að vinna alla fimm leiki sína í B-deildinni til þessa og er þar með á toppnum.

Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar liðið sem kunnugt er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert