Erlent

Insta­gram sætir gagn­rýni vegna aug­­lýsinga á þyngingar­lyfjum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
NHS gagnrýnir Instagram fyrir að loka ekki fyrir aðganga sem auglýsa lyfið Apetamin, sem veldur lystauka.
NHS gagnrýnir Instagram fyrir að loka ekki fyrir aðganga sem auglýsa lyfið Apetamin, sem veldur lystauka. Getty

Heilbrigðisstofnun Englands hefur biðlað til samfélagsmiðilsins Instagram að loka fyrir aðganga sem auglýsa og selja ólöglegt og „hættulegt“ lyf sem sérstaklega er auglýst ungum konum og stelpum.

Lyfið Apetamin er bannað í Bretlandi en hægt er að versla það á vefsíðum og láta senda til landsins samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins. Lyfið er sagt stuðla að því að líkamar verði eins og stundarglas í laginu sem margar stjörnur stæra sig af, eins og Cardi B og Kim Kardashian.

Heilbrigðisstofnun Englands, NHS, sendi opið bréf á Instagram á dögunum og sagðist hafa áhyggjur af neikvæðum áhrifum auglýsinga á lyfinu á andlega- og líkamlega heilsu fólks.

Lyfið veldur lystarauka og segja heilbrigðisstarfsmenn að ofnotkun á því geti valdið alvarlegri þreytu, gulu og jafnvel lifrarbilun.

Apetamin er mikið auglýst af áhrifavöldum og er það auglýst sem auðveld leið til þess að bæta á sig kílóum í von um að ná hinu svokallaða stundarglass-vaxtarlagi.

Instagram sagði í yfirlýsingu að það hafi tekið niður og bannað aðganga sem auglýstu og seldu Apetamin í kjölfar þess að BBC Three gaf út heimildarmyndina Dangerous Curves, sem var frumsýnd 21. apríl síðastliðinn.

Síðan þá segist NHS reyndar hafa fundið tugi Instagram-aðganga sem enn selja efnið og að þegar það hafi verið tilkynnt Instagram hafi ekkert verið í því gert.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×