Önnur gullverðlaunin í sögu þjóðarinnar

Richard Carapaz fagnar sigrinum á marklínunni í Tókýó í dag.
Richard Carapaz fagnar sigrinum á marklínunni í Tókýó í dag. AFP

Ekvador hlaut í dag sín önnur gullverðlaun í sögunni á Ólympíuleikum þegar Richard Carapaz vann glæsilegan sigur í götuhjólreiðum karla þar sem hann stakk keppinauta sína af á lokasprettinum.

Vegalengdin var 234 kílómetrar og þegar sex kílómetrar voru eftir sagði Carapaz skilið við þá sem veittu honum harðasta keppni og kom í mark á 6 klukkustundum, 05,26 mínútum, einni mínútu og sjö sekúndum á undan næstu mönnum.

Wout van Aert frá Belgíu fékk silfurverðlaunin og bronsið hlaut Tadej Pogacar frá Slóveníu, sigurvegarinn í Frakklandshjólreiðunum, Tour de France, undanfarin tvö ár. Þeir tveir komu hnífjafnir í mark í þéttum hópi átta hjólreiðamanna sem slógust um verðlaunasætin tvö sem í boði voru á endasprettinum.

Carapaz er 28 ára gamall og skráir með þessu nafn sitt endanlega í sögubækur íþróttanna í Ekvador. Eini gullverðlaunahafi landsins á Ólympíuleikum til dagsins í dag var Jefferson Pérez sem sigraði í 20 kílómetra göngu karla á leikunum í Atlanta árið 1996. Til viðbótar hefur landið hlotið ein silfurverðlaun og þar var Pérez aftur á ferð í sömu grein á leikunum í Peking árið 2008.

Baráttan um silfrið og bronsið var afar hörð. Tadej Pogacar, …
Baráttan um silfrið og bronsið var afar hörð. Tadej Pogacar, lengst til vinstri, varð þriðji og Wout van Aert, lengst til hægri, varð annar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert