Meistarar í 28. sinn

Framarar eru Reykjavíkurmeistarar 2023.
Framarar eru Reykjavíkurmeistarar 2023. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fram er Reykjavíkurmeistari karla í knattspyrnu í 28. skipti eftir sigur gegn Víkingi í úrslitaleik á Víkingsvelli í kvöld.

Leiknum lauk með stórsigri Framara, 4:1, en Magnús Þórðarson gerði sér lítið fyrir og skoraði tvívegis í leiknum.

Danijel Dejan Djuric kom Víkingum yfir strax á 9. mínútu og Víkingar leiddu með einu marki gegn engu í hálfleik.

Magnús jafnaði svo metin fyrir Framara strax í upphafi síðari hálfleiks og hann var aftur á ferðinni á 56. mínútu þegar hann kom Frömurum yfir, 2:1.

Karl Friðleifur Gunnarsson fékk að líta rauða spjaldið í liði Víkinga á 74. mínútu og bikarmeistararnir því einum manni færri það sem eftir lifði leiks.

Víkingar freistuðu þess að jafna metin og lögðu allt í sóknarleikinn á lokamínútunum og Framarar skoruðu tvö mörk úr skyndisóknum.

Tryggvi Snær Geirsson skoraði þriðja mark Framara á 90. mínútu og Aron Snær Ingason bætti við fjórða markinu í uppbótartíma og þar við sat.

Markaskorarar fengnir af fótbolta.net þar sem leikurinn var í beinni textalýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert