Forsetinn braut sóttvarnareglur á HM og er kominn í bann

Strangar sóttvarnareglur voru í gildi á HM í Egyptalandi og …
Strangar sóttvarnareglur voru í gildi á HM í Egyptalandi og áhorfendur voru ekki leyfðir á leikjunum. AFP

Alþjóðahandknattleikssambandið, IHF, tilkynnti í dag að Hesham Nasr, forseti egypska handknattleikssambandsins, hefði verið settur í bann frá öllum afskiptum af íþróttinni vegna brota á sóttvarnareglum.

Egyptar héldu heimsmeistaramót karla í janúarmánuði og þar varð Nasr uppvís að því að brjóta reglurnar hvað eftir annað.

Á heimasíðu IHF kemur fram að Nasr hafi strax á opnunarhátíðinni 13. janúar farið á milli sóttvarnasvæða.

Tveimur dögum síðar hafi hann hitt fulltrúa sendiráðs Grænhöfðaeyja og farið á milli sóttvarnasvæða í keppnishöllinni á leik Ungverjalands og Grænhöfðaeyja.

Hinn 17. janúar hafi Nasr verið tilkynnt formlega um brot hans á sóttvarnareglum, ásamt því að hann hefði tekið á móti gestum sem ekki hefðu tilheyrt sóttvarnasvæðinu, m.a. þingmönnum, og farið með þá í gegnum svæðin.

Nasr svaraði IHF bréflega 18. janúar og sagði að hann og allir meðlimir undirbúningsnefndar mótsins hefðu farið að öllum reglum og ávallt farið í skimun ef þeir hefðu hitt einhverja utan sóttvarnakúlu mótsins. Þau próf hefðu ávallt reynst neikvæð.

Þá segir á heimasíðunni að 19. janúar hafi Nasr brotið reglurnar gróflega þrátt fyrir fyrri aðvaranir og vel hefði sést í sjónvarpi þegar hann hafi gengið á milli sóttvarnasvæða á leik Norður-Makedóníu og Síle. 

Sagt er að það hafi verið einróma ákvörðun framkvæmdastjórnar IHF að Hisham Nasr skyldi settur í bann frá öllum afskiptum af handknattleik fram að næsta þingi Alþjóðahandknattleikssambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert