Blikar gengu á lagið í lokin

Tiff­any McCarty og Annie Williams bítast um boltann á Kópavogsvelli …
Tiff­any McCarty og Annie Williams bítast um boltann á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik vann 7:2-stórsigur á ÍBV í 11. umferð úrvalsdeildar kvenna, Pepsi Max-deildarinnar, er liðin mættust á Kópavogsvelli í kvöld. Hefndu heimakonur þar með fyrir 4:2-tapið í Vestmannaeyjum fyrr í sumar.

ÍBV gerði sér lítið fyrir og vann fyrri viðureign liðanna 4:2 í annarri umferðinni í Vestmannaeyjum fyrr í sumar. Slíkt var þó aldrei í kortinu í kvöld og ekki hjálpaði að markahæsti leikmaður liðsins. Delaney Pridham, tók út leikbann í kvöld. Hún skoraði einmitt tvö mörk í fyrri leiknum og hefur skorað sjö fyrir Eyjakonur í deildinni.

Heiðdís Lillýjardóttir kom heimakonum í forystu strax á fimmtu mínútu með skalla í kjölfar þess að Kristín Dís Árnadóttir átti skot sem Auður S.Scheving varði í marki ÍBV en færin komu í kjölfar hornspyrnu. Belgíska landsliðskonan Chloé Vande Velde skoraði svo sitt fyrsta mark í sumar í fjórða deildarleiknum á 12. mínútu. Stýrði hún þá boltanum í nærhornið af stuttu færi eftir sendingu frá Öglu Maríu Albertsdóttur á vinstri kantinum.

Eyjakonur voru reyndar ekki dauðar úr öllum æðum og náðu eigin marki eftir 20 mínútna leik. Annie Williams fiskaði þá vítaspyrnu þegar Ásta Eir Árnadóttir setti fyrir hana fótinn. Þóra Björg Stefánsdóttir fór á punktinn og skoraði örugglega, stöngin inn.

Heimakonur fóru þó inn í leikhlé með tveggja marka forystu. Heiðdís skoraði sitt annað mark, aftur með skalla, á 33. mínútu eftir hornspyrnu frá Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur en Blikar fengu alls 11 hornspyrnur í fyrri hálfleik.

Gestirnir áttu þó eftir að minnka muninn á nýjan leik. Þóra Björg lyfti boltanum inn í teig úr aukaspyrnu á 64. mínútu og Hanna Kallmaier skallaði knöttinn í þverslá og inn. En aftur áttu líka heimakonur eftir að endurheimta tveggja marka forystuna. Hildur Antonsdóttir, nýkomin inn á sem varamaður, skoraði sitt annað mark í þremur leikjum eftir laglega vippusendingu frá Öglu Maríu á 72. mínútu. Hildur er nýlega snúin aftur á völlinn eftir að hafa slitið krossband í fyrra og hefur innkoma hennar í sumar verið öflug.

Blikar ráku svo smiðshöggið á stórsigurinn með þremur mörkum seint í leiknum. Selma Sól Magnúsdóttir skoraði á 83. mínútu eftir undirbúning frá Hildi og Agla María renndi svo knettinum á Áslaugu Mundu sem skoraði sjötta markið í uppbótartíma af stuttu færi. Það var svo tími fyrir eitt í lokin, skot Öglu fór af varnarmanni en Hildur var fyrst í frákastið og skoraði sitt annað mark.

Breiðablik 7:2 ÍBV opna loka
90. mín. Áslaug Munda Gunn­laugs­dótt­ir (Breiðablik) skorar 6:2 - Agla María rennir boltanum inn á Áslaugu vinstra megin í teignum og hún skorar með föstu skoti upp í markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert