Valsmenn burstuðu KA á Akureyri

Nicholas Satchwell markvörður KA ver skot í leiknum gegn Val …
Nicholas Satchwell markvörður KA ver skot í leiknum gegn Val í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Valsmenn keyrðu yfir KA-menn í Olís-deildinni í handbolta karla í dag. Eftir jafnar upphafsmínútur tók við kafli þar sem KA skoraði ekki í rúmar tólf mínútur. Á þeim kafla varði Björgvin Páll Gústafsson allt sem ekki fór í stangir Valsmarksins. Valur byggði upp ellefu marka forskot og komst í 15:4. KA-menn voru hræðilega slakir á öllum vígstöðvum og ungir og sprækir Valsmenn léku við hvurn sinn fingur.  

Gulklæddir heimamenn náðu að laga stöðuna örlítið fyrir hálfleiksflaut og var staðan 16:8 í hálfleiknum. Þá var Björgvin Páll búinn að verja ellefu skot. 

Á upphafsmínútum seinni hálfleiks kláruðu Valsmenn leikinn endanlega og komust í 24:11. Þá var þetta bara búið og bæði lið skiptu mikið inn á. KA-menn náðu aðeins að laga stöðu sína og lauk leiknum með sigri Vals, 35:26. 

Hið unga lið Vals er hrein unun að horfa á. Í því eru ungir og efnilegir leikmenn í stórum og jafnvel lykilhlutverkum. Einar Þorsteinn Ólafsson er afbragðs varnarmaður og er notaður hárrétt af þjálfurum Vals. Bræðurnir Arnór Snær og Benedikt Gunnar Óskarssynir eru engin tröll en þvílíkir handboltamenn. Tumi Steinn og Þorgils Jón gerðu sig gildandi í fyrra og verða bara betri með hverjum leik. Það er gaman að sjá lið eins og Val unga út svona mikið af mönnum úr yngri flokkum félagsins og treysta þeim til að spila stór hlutverk í liðinu. 

KA gat gefið sínum heimalningum mínútur í þessum leik og er ljóst að þar eru hörkustrákar á ferð. Þeir sem hingað til hafa spilað meira verða hreinlega að hysja upp um sig buxurnar eftir slaka leiki upp á síðkastið. 

Valsmenn eru ósigraðir í deildinni og sitja á toppnum eftir fimm leiki. KA er með tvo sigurleiki en þrír síðustu leikir liðsins hafa allir farið mjög illa og í dag sá liðið aldrei til sólar. 

KA 26:35 Valur opna loka
60. mín. Arnór Snær Óskarsson (Valur) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert