Vilja ekki þessa ógn í sínu umhverfi

Vélhjólasamtökin Hells Angels voru stofnuð í Kaliforníu árið 1948 og …
Vélhjólasamtökin Hells Angels voru stofnuð í Kaliforníu árið 1948 og skipta liðsmenn þeirra þúsundum um heim allan. AFP

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur segir fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af því ef vélhjólasamtök á borð við Bandidos séu að festa rætur hérlendis til lengri tíma.

Hann tekur þó fram að hingað til hafi íslenskum lögregluyfirvöldum, í samvinnu við lögregluna á Norðurlöndunum, tekist að koma í veg fyrir að þau festi rætur.

Undanfarið hefur nokkrum liðsmönnum Bandidos verið vísað héðan úr landi. Lögreglan telur að vél­hjóla­sam­tök­in Bandidos MC Ice­land hafi hlotið full­gild­ingu á Íslandi frá MC Bandidos Sweden og að liðsmenn þeirra séu á ann­an tug tals­ins.

„Það er einhver jarðvegur og áhugi hérna fyrir því að tengjast þessum samtökum,“ segir Helgi og bendir á að í byrjun síðasta áratugar hafi vélhjólasamtök markvisst reynt að festa rætur hérlendis en að lögreglan hafi farið í átak gegn þeim og meðal annars stöðvað leiðtoga þeirra á landamærunum og vísað þeim úr landi.

Saklausir borgarar lent á milli 

Hann segir liðsmenn þessara samtaka iðulega tala um að þeir stundi ekki glæpastarfsemi en að einhverjir innan þeirra hafi mögulega gert það einhvern tímann. Þannig reyna þeir að aðgreina samtökin frá einstökum félagsmönnum og vísa jafnframt í félaga-, funda- og ferðafrelsi til að réttlæta tilveru sína.

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur.
Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vitum að samt hefur þeim fylgt brotastarfsemi og ógn fyrir nærliggjandi umhverfi,“ greinir Helgi frá og bendir í því samhengi á Norðurlöndin þar sem vélhjólasamtök hafa átt í innbyrðis átökum. „Eins og í Danmörku þá hafa lögregluyfirvöld næstum því verið í hernaðarástandi gagnvart þessum samtökum og þarna eru félagsmenn að bítast um svæði. Þetta eru gengjastríð og þau geta verið harðvítug en saklausir borgarar hafa líka lent á milli,“ bætir hann við.

Yngri karlar á jaðrinum fá viðurkenningu

Ýmiss konar truflun getur fylgt starfsemi þessara samtaka. Oft eru þau með aðstöðu nálægt íbúðahverfum. Bæði veldur það truflun gagnvart öðrum, auk þess sem menn óttast að eignir falli í verði. Liðsmenn koma einnig saman á börum eða kaffihúsum. „Það tilheyrir þessu ákveðin ógn en líka hræðsla. Þetta er eitthvað sem menn vilja ekki sjá í sínu umhverfi.“

Merktur Bandidos.
Merktur Bandidos. Ljósmynd/Af vef Europol

Helgi kveðst hafa áhyggjur af því ef einstaklingum á jaðrinum í samfélaginu og að einhverju leyti utangátta, oft yngri körlum, finnist spennandi að tengjast samtökum sem þessum. Þar geti þeir fengið viðurkenningu sem þeir fá ekki annars staðar. Sjá þeir innan samtakanna eldri karla sem fyrirmyndir í einkennisbúningum og á flottum hjólum. „Þetta getur verið lokkandi fyrir unglinga sem eru í vanda,“ segir hann.

Gamaldags starfsemi 

Sem afbrotafræðingur hefur Helgi rætt við samstarfsmenn á Norðurlöndunum og sumir þeirra segja starfsemi vélhjólasamtaka sem eru skilgreind sem skipulögð glæpasamtök vera frekar gamaldags. Núna séu afbrotin orðin fágaðri og önnur tækni notuð. „Þetta séu kannski bara gamlir karlar sem voru í brotum í fyrri tíð en eru að einhverju leyti vaxnir upp úr því,“ segir Helgi, sem vill þó ekki gera lítið úr hættunni sem af þeim stafar.

„Þetta er raunverulegt vegna þess að við höfum sögu þessara samtaka úti um allan heim. Þar sem þau festa rætur eru þetta oft skjól fyrir brotastarfsemi af ýmsu tagi, það má ekkert horfa fram hjá því, en við höfum nokkurn veginn verið blessunarlega verið laus við þetta,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert