Erlent

Bretar hóta því að ógilda hluta Brexit-samnings vegna Norður-Írlands

Kjartan Kjartansson skrifar
Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, segir reglurnar um vöruflutninga og viðskipti eftir Brexit ljón í vegi stjórnarmyndunar á Norður-Írlandi.
Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, segir reglurnar um vöruflutninga og viðskipti eftir Brexit ljón í vegi stjórnarmyndunar á Norður-Írlandi. AP/Alastair Grant

Utanríkisráðherra Bretlands sagði að bresk stjórnvöld gætu neyðst til þess að fella úr gildi hluta útgöngusamnings við Evrópusambandið er breytingar yrðu ekki gerðar á landamæra- og tollaeftirliti á Norður-Írlandi.

Bretar og Evrópusambandið hafa lengi vandræðast með hvað ætti að gera við Norður-Írland, breskt landsvæði sem á landamæri að Írlandi, sem er enn í Evrópusambandinu, eftir útgöngu Breta úr sambandinu. Þau vildu forðast í lengstu lög að setja þyrfti upp hefðbundin landamæri innan Írlands.

Tímabundna lausnin var að koma ekki upp landamæraeftirliti á milli Írlands og Norður-Írlands en í staðinn tollaeftirliti með sumum vörum sem fara á milli Norður-Írlands og öðrum hlutum Bretlands handan Írlandshafs.

Sambandssinnum á Norður-Írlandi mislíkar þetta fyrirkomulag verulega. Nú er svo komið að flokkur þeirra neitar að mynda samstarfsstjórn með írskum þjóðernissinnum eftir kosningar í síðustu viku nema því verði breytt í grundvallaratriðum.

Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, ræddi við Maros Sefcovic, varaforseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í síma í dag. Þar sagði hún að fyrirkomulagið á Norður-Írlandi væri nú helsta hindrunin í vegi stjórnarmyndunar í Belfast, að sögn AP-fréttastofunnar. Breska stjórnin hefðu ekki um annað að velja en að fella úr gildi hluta útgöngusamningsins hvað þetta varðar ef sambandið sýndi ekki sveigjanleika.

Talsmenn ráðuneytis Truss segja að Sefcovic hafi ekki gefið neitt eftir í samtali þeirra.

Engin heimastjórn hefur verið á Norður-Írlandi frá því í febrúar þegar Paul Givan, leiðtogi DUP, flokks sambandssinna, sagði af sér sem oddviti heimastjórnarinnar til þess að mótmæla tollaeftirlitinu þar. Samkvæmt friðarsamkomulaginu sem kennt er við föstudaginn langa þurfa flokkar sambands- og þjóðernissinna að deila völdum á Norður-Írlandi.

DUP hefur ekki ljáð máls á því að mynda samvinnustjórn með Sinn Fein á meðan reglurnar eftir Brexit eru óbreyttar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×