Landsréttur mildaði refsingu vegna breyttra haga

Landsréttur.
Landsréttur. Hanna Andrésdóttir

Landsréttur stytti fangelsisrefsingu manns um hálft ár þar sem rétturinn taldi grundvallarbreytingu hafa orðið á högum hans. Sakargiftir í málinu voru margvíslegar en manninum var meðal annars gert að sök að hafa brotið fjölda umferðarlaga en einnig gerst sekur um líkamsárás og fíkniefnabrot. Rétturinn tók sérstakt tillit til þess „að  grundvallarbreyting hefur orðið á högum ákærða frá því er þeirri brotahrinu lauk[...]“.

Í dóminum kemur fram að ákærði hafi lagt fram fyrir Landsrétt frekari gögn sem sýni fram á að hann hafi sagt skilið við fíkniefnaneyslu og sæki sér stuðning. Hann stundi núna vinnu og hafi búið sér til fjölskyldulíf. „Ákærði hefur lagt fyrir Landsrétt frekari gögn sem sýna  fram á að  hann hafi sagt skilið við vímuefnaneyslu og sæki stuðning í því efni,“ segir í dóminum.

Dómur héraðsdóms stóð óraskaður nema refsingin sem var milduð um hálft ár, úr tveimur og hálfu í tvö. Maðurinn var sviptur ökuréttindum ævilangt, þarf að greiða brotaþola 486.842 krónur með dráttarvöxtum auk áfrýjunarkostnaðar og málsvarnarlauna verjanda síns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert