Búinn að fá nóg af VAR

Ollie Watkins var skiljanlega svekktur í gær.
Ollie Watkins var skiljanlega svekktur í gær. AFP

Gary Neville, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnuliðsins Manchester United og núverandi sjónvarpsmaður hjá Sky, er búinn að fá nóg af myndbandsdómgæslu í ensku úrvalsdeildinni. 

Enn eitt vafaatriðið átti sér stað í gær er Aston Villa og West Ham mættust á heimavelli síðarnefnda liðsins.

Ollie Watkins skoraði fyrir Aston Villa í uppbótartíma í stöðunni 2:1 fyrir West Ham en markið stóð ekki þar sem Watkins var örfáum millímetrum fyrir innan að mati myndbandsdómgæslunnar. Tók langan tíma að taka ákvörðunina og var erfitt að sjá hvers vegna markið var dæmt af.

„Línurnar á skjánum er ekki vandamálið heldur hvernig dómarar eru byrjaðir að efast um sjálfa sig. Það er ekki vandamál þegar dómarar nota skjáinn en það er vandamál þegar þeir nota skjáinn og breyta réttri ákvörðun í ranga ákvörðun. Hvernig tækninni er beitt er vandamálið,“ sagði Neville og hélt svo áfram.

„Reglan um hendi er bull og reglan um rangstöðu er bull. Það þarf að breyta þeim reglum og ef það er gert verður VAR mun aðgengilegra,“ sagði Neville pirraður á Sky.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert