„Seðlabanki Bandaríkjanna og aðrir seðlabankar standa nú frammi fyrir því að allar ákvarðanir eru vondar. Þeir þurfa að halda vöxtum háum til að halda trúverðugleika sínum í baráttunni við verðbólguna. En ef þeir hækka vexti veldur það vandamálum hjá fjármálastofnunum sem eru háð lágum vöxtum,“ segir Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics, um áhrif falls Silicon Valley Bank á peningastefnu seðlabanka heimsins.

Hann segir að þegar horft sé til undanfarinna fimmtán ára hafi fjármálastöðugleiki og peningastefna farið í sömu átt. Nú sé það öfugt farið, fjármálastöðugleiki og peningastefnan séu að ýta í mismunandi áttir. Fall SVB sýni gallann við að hafa fjármálaeftirlit og peningastefnu undir sömu stofnuninni.

„Fjármálaeftirlitið í Bandaríkjunum virðist hafa kosið að horfa ekki til mögulegra afleiðinga lágvaxtastefnu peningastefnunefndar Seðlabankans á fjármálastöðugleika og þegar kemur að eftirliti með SVB og öðrum bönkum. Ég velti fyrir mér hvort þetta fall SVB sé hreinlega sprottið upp af því að eftirlitsaðilinn er sami aðilinn og býr til peningastefnuna. Mögulega er þetta góð ástæða fyrir því að þetta ættu að vera tvær aðskildar stofnanir.“

Jón segir engin merki um væntanlega fjármálakrísu.

„Þetta aftur á móti sýnir ákveðinn veikleika í kerfinu sem fjárfestar höfðu ekki áttað sig á. Markaðurinn eru nú farinn að skoða betur eignasöfn banka og hvort þeir séu viðkvæmir fyrir hækkandi vöxtum. Svo er það hitt að þetta hefur áhrif á aðra banka sem eru veikir fyrir í dag eins og Credit Suisse, sem er í erfiðleikum einfaldlega vegna þess að hann er illa rekinn. Þetta magnar án efa upp erfiðleika slíkra banka.“

Nánar er fjallað um fall Silicon Valley Bank í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kemur út í fyrramálið.