Öðru markmiði afléttingaráætlunar náð

Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 109.000 manns voru búnir að fá að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn Covid-19 í gær en það er um 37,5% af þeim hópi sem á að bólusetja hérlendis. Er þar með öðru markmiði ríkisstjórnarinnar náð í samhengi við afléttingaráætlun. 

Áætlunin gerir ráð fyrir því að 20 til 200 manns geti komið saman í byrjun maímánaðar, sem hefst á morgun, eða þegar 35% þeirra sem á að bólusetja hafa fengið fyrsta skammtinn. 

Gildandi reglugerð um samkomutakmarkanir, sem gerir ráð fyrir 20 manna samkomubanni, gildir til 5. maí n.k. Sóttvarnalæknir hefur sagst stefna að því að skila tillögum um áframhaldandi aðgerðir um helgina. 

Bólusett með allt að 30.000 skömmtum í næstu viku

Fyrsta markmiðinu í afléttingaráætluninni náðist í apríl síðastliðnum, þegar 25% höfðu verið bólusettir. 

„Búið er að bólusetja yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem eru 60 ára og eldri og hluta fólks og hluta fólks með undirliggjandi sjúkdóma. Rétt er að taka fram að það getur tekið um tvær vikur fyrir bóluefnið að ná fullri virkni og sú vernd sem fyrri skammtur gefur fólki er því ekki að fullu komin fram hjá öllum þessum hópi,“ segir í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu um málið.

„Áætlað er að bólusett verði með 20.000 til 30.000 skömmtum í næstu viku, þ.e. 3.-7. maí næstkomandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert