Jón Daði á skotskónum í bikarsigri

Jón Daði Böðvarsson í baráttu við Aymeric Laporte í landsleik …
Jón Daði Böðvarsson í baráttu við Aymeric Laporte í landsleik Íslands og Spánar síðastliðið vor. AFP/Javier Soriano

Jón Daði Böðvarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, skoraði eitt marka Bolton Wanderers þegar liðið bar sigurorð af Salford, 5:1, í 1. umferð enska deildabikarsins í kvöld.

Thomas-Asante Brandon kom gestunum í Salford yfir á 23. mínútu áður en Elias Kachunga jafnaði metin fyrir Bolton á 31. mínútu.

Jón Daði kom svo heimamönnum yfir á 42. mínútu og staðan því 2:1 í leikhléi.

Eftir rétt rúmlega klukkutíma leik bætti Kieran Sadlier við þriðja markinu.

Á 78. mínútu skoraði Conor Bradley, lánsmaður frá Liverpool, svo fjórða mark Bolton. Hafði hann komið inn á sem varamaður aðeins þremur mínútum fyrr.

Áður en yfir lauk skoraði annar varamaður, Oladapo Afolayan, fimmta markið og innsiglaði afar öruggan sigur.

Bolton er þar með komið áfram í 2. umferð enska deildabikarsins.

Jón Daði lék fyrstu 83 mínúturnar í fremstu víglínu hjá Bolton í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert