Mette fær á trýnið fyrir minkamálið

Minkamálið hefur legið sem mara á Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana.
Minkamálið hefur legið sem mara á Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana. AFP/Ólafur Steinar Gestsson

Rannsóknarnefnd danska þingsins hefur samþykkt formlegar ávítur á Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, fyrir þátt hennar í minkamálinu. Þetta kemur fram í frétt danska ríkisútvarpsins, DR, um málið. 

Mogens Jensen, samflokksmaður Frederiksen og fyrrverandi matvælaráðherra, fær einnig ávítur frá þinginu, en ávítur sem þessar eru í daglegu tali kallaðar „en næse“ á dönsku, eða nef. 

Meirihluti þingsins stendur að ákúrunum, en Einingarlistinn, Radikale Venstre, Sósíalíski þjóðarflokkurinn og Jafnaðarmannaflokkurinn, flokkur Frederiksen, hafa lýst yfir stuðningi sínum við þær. Jafnaðarmenn sitja nú einir í minnihlutastjórn, sem nýtur stuðnings frá hinum þremur flokkunum.

Frekar stórt nef

Rasmus Stoklund, talsmaður Jafnaðarmannaflokksins, sagði við danska ríkisútvarpið að hann liti á þetta sem endapunkt minkamálsins. „Við erum sátt með niðurstöður rannsóknarnefndarinnar, og þetta er dómur okkar í þessu máli,“ sagði Stoklund. 

„Ég held að þetta sé frekar stórt nef,“ sagði Peder Hvelplund þingflokksformaður Einingarlistans um ávíturnar á hendur forsætisráðherra.

Stjórnarandstaðan styður ekki ávíturnar, heldur vill hún að óháð nefnd lögfræðinga meti hvort að ástæða sé til að draga Frederiksen fyrir landsrétt vegna minkamálsins. 

Sagði í áliti stjórnarandstöðuflokkanna um málið að þeir teldu að forsætisráðherra ætti að bera pólitíska ábyrgð á „stærsta pólitíska og stjórnskipulega hneykslismáli síðari tíma með því að segja af sér og boða til kosninga til þingsins.“

Óháðir græningjar eru eini vinstriflokkurinn sem tekur undir álit minnihlutans. Sagði Sikandar Siddique, leiðtogi flokksins, að hann væri ekki stoltur af því að vera vinstrimaður í dag. Sagði hann þetta vondan dag fyrir réttarríkið, þar sem samtryggingin stæði upp úr. Sagði hann stuðningsflokka ríkisstjórnarinnar hafa komið í veg fyrir að ábyrgðin á minkamálinu gæti fallið á rétta staði.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert