Whitfield snýr aftur til Íslands

Flenard Whitfield með boltann í leik með Haukum.
Flenard Whitfield með boltann í leik með Haukum. mbl.is/Hari

Bandaríski körfuknattleiksmaðurinn Flenard Whitfield er kominn til landsins á nýjan leik og Körfuknattleikssamband Íslands hefur staðfest félagaskipti hans til Tindastóls á Sauðárkróki.

Whitfield er þrítugur framherji, 2,01 m á hæð, og lék áður með Skallagrími 2016-17 og með Haukum 2019-20. Í bæði skiptin lét hann mikið að sér kveða í stigaskori og fráköstum, var stigahæstur og næstfrákastahæstur í fyrra skiptið þegar hann skoraði 29,4 stig og tók 14,6 fráköst að meðaltali í leik með Borgnesingum, og með Haukum skoraði hann 21 stig og tók 10 fráköst að meðaltali í leik.

Whitfield varð finnskur meistari með Kauhajoen Karhu árið 2018 en hann hefur einnig leikið með kanadísku liðunum KW Titans og Orangeville.

Tindastóll er í sjöunda sæti Dominos-deildar karla með 10 stig úr 10 leikjum og spilar næst gegn Stjörnunni á útivelli á mánudagskvöldið, þá væntanlega með Whitfield innanborðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert