Höfum ekki unnið Sviss síðan Vanda var í landsliðinu

Vanessa Bürki og Glódís Perla Viggósdóttir landsliðsfyrirliði eigast við í …
Vanessa Bürki og Glódís Perla Viggósdóttir landsliðsfyrirliði eigast við í leik Sviss og Íslands á EM 2017, sem Sviss vann. AFP/Daniel Mihailescu

„Við erum að fara að spila á móti Nýja-Sjálandi í Tyrklandi og Sviss í Sviss. Þetta verða tveir hörkuleikir,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.

„Ef við horfum á þetta út frá heimslistanum þá er Sviss á svipuðum stað og við og Nýja-Sjáland aðeins neðar,“ bætti hann við.

Ísland er í 14. sæti sæti á nýjum heimslista FIFA á meðan Sviss er í 20. sæti og Nýja-Sjáland, sem er annar gestgjafa HM 2023, í 25. sæti.

„Við spiluðum við Nýja-Sjáland á SheBelieves-mótinu og unnum þær þar. Þær eru náttúrlega að undirbúa sig fyrir HM.

Sviss höfum við held ég ekki unnið síðan Vanda [Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ] var í landsliðinu þannig að við gerum okkur grein fyrir því að við erum að fara að spila við erfiða andstæðinga,“ bætti Þorsteinn við í léttum tón.

Það er sannleikanum samkvæmt. Ísland vann Sviss síðast fyrir tæpum 37 árum síðan, í vináttulandsleik á Akranesvelli í ágúst árið 1986.

Vanda og mæður tveggja landsliðskvenna í byrjunarliðinu í síðasta sigurleik

Vanda var í byrjunarliðinu í þeim leik ásamt Guðrúnu Sæmundsdóttur, móður Hlínar Eiríksdóttur, og Kristínu Önnu Arnþórsdóttur, móður Ástu Eirar Árnadóttur, en Kristín Anna skoraði sigurmarkið í 1:0-sigri í ofangreindum leik.

Hlín og Ásta Eir eru báðar í landsliðshópnum að þessu sinni.

Ísland hefur tapað fjórum síðustu leikjum sínum gegn Sviss eftir að hafa unnið þrjá og gert eitt jafntefli í fjórum leikjum á undan.

Gegn Nýja-Sjálandi hefur Ísland unnið 1:0 á SheBelieves-mótinu í Bandaríkjunum á síðasta ári og gert 1:1-jafntefli á Algarve-mótinu í Portúgal árið 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert