Ætlum að vinna restina

Berglind Baldursdóttir, önnur frá vinstri, í leik með Þór/KA í …
Berglind Baldursdóttir, önnur frá vinstri, í leik með Þór/KA í sumar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Mér líður ótrúlega vel. Þetta er mikill léttir og við áttum þetta skilið,“ sagði kampakát Berglind Baldursdóttir leikmaður Þórs/KA í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur á FH í fallbaráttuslag í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í dag. 

Sigurinn var sá fyrsti hjá norðankonum í deildinni síðan 29. júlí og því afar kærkominn. „Þetta var mjög kærkominn sigur sem við erum búnar að vinna að lengi. Mér fannst við sterkari. Við byrjuðum rosalega vel og áttum að skora 2-3 mörk í byrjun. Við vorum óheppnar að vinna ekki stærra en sigur er sigur og þrjú stig er það eina sem skiptir máli.“

Eftir sterka byrjun á mótinu fór að halla undan fæti hjá Þór/KA. Berglind segir stress hjá leikmönnum hafa sett strik í reikinginn, en hún er brött fyrir lokakafla tímabilsins. „Það hefur verið eitthvað stress í okkur sem við höfum ekki náð úr okkur. Við byrjuðum rosalega sterkt og unnum fyrstu leikina mjög vel en fengum svo skell á móti sterkustu liðunum. Nú erum við komnar upp aftur og ætlum að vinna restina.“

Berglind skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild þegar hún kom Þór/KA yfir í fyrri hálfleik. Hún vonast til að fleiri mörk séu á leiðinni. „Tilfinningin er mjög góð og vonandi eru fleiri á leiðinni. Þetta var mjög skemmtilegt mark og sérstaklega gaman að skora í sigurleik. Við ætlum okkur að taka einn leik í einu og markmiðið er að vinna hvern einasta,“ sagði Berglind. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert