Háskólagarðar HR við Öskjuhlíðina formlega opnaðir í dag

Ragnhildur Helgadóttir rektor HR, Selma Rún Friðjónsdóttir varaforseti Stúdentafélags HR, …
Ragnhildur Helgadóttir rektor HR, Selma Rún Friðjónsdóttir varaforseti Stúdentafélags HR, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra gróðursettu tré. Ljósmynd/Aðsend

Rúmlega 250 íbúðir og herbergi fyrir nemendur Háskólans í Reykjavík voru formlega tekin í notkun við Nauthólsveg í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HR.

Af því tilefni var íbúum boðið upp á kaffi og með því og Ragnhildur Helgadóttir rektor HR, Selma Rún Friðjónsdóttir varaforseti Stúdentafélags HR, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra gróðursettu tré að viðstöddum íbúum, stjórn HR og framkvæmdaráði, starfsfólki, fulltrúum verktaka og arkitekta og fleirum.

Framkvæmdir staðist tíma- og fjárhagsáætlanir

Fyrsta skóflustungan að Háskólagörðum HR var tekin í september 2018. Framkvæmdir hafa gengið vel og staðist tíma- og fjárhagsáætlanir. Gert er ráð fyrir að uppbygging Háskólagarðanna fari fram í fjórum áföngum.

Í tveimur fyrstu áföngunum, sem opnaðir voru formlega í dag, eru alls 72 fullbúin einstaklingsherbergi, 78 einstaklingsíbúðir, 78 tveggja herbergja paraíbúðir, 24 þriggja herbergja fjölskylduíbúðir, auk sex íbúða fyrir starfsfólk og samstarfsaðila.

Ljósmynd/Aðsend

Heildarkostnaður við fyrstu tvo áfanga nemur tæpum sex milljörðum króna

Kanon arkitektar hönnuðu byggingarnar og Jáverk sá um framkvæmdirnar. Heildarkostnaður við fyrstu tvo áfangana nemur tæpum sex milljörðum króna. Í tilkynningunni segir að um sé að ræða hagkvæmar leiguíbúðir samkvæmt reglum Íbúðalánasjóðs sem veitir stofnframlag til byggingarinnar sem nemur 22% af byggingakostnaði.

Reykjavíkurborg leggur fram stofnframlag sem nemur lóðagjaldi og gatnagerðargjöldum. Gert er ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu Háskólagarða HR á Nauthólsvegi 87 næsta sumar, eftir flutning skóla Hjallastefnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert