Vill verða forsætisráðherra eftir kosningar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, segist hafa metnað til að mynda og leiða ríkisstjórn að loknum kosningum á næsta ári.

Þetta sagði Bjarni þegar hann svaraði spurningum í beinu streymi á Facebook-síðu Sjálfstæðisflokksins í dag.

Ein spurningin varðaði það hvort hann langaði til að verða forsætisráðherra á ný.

„Að sjálfsögðu hef ég metnað til þess, eftir kosningar, að mynda ríkisstjórn og leiða hana. Það er engin spurning,“ sagði Bjarni og bætti við að hann hefði staðið frammi fyrir ólíkum sviðsmyndum eftir fyrri kosningar.

„En Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið ágætlega sterkur út úr öllum síðustu kosningum. Það hefur svona aðeins farið upp og niður, fylgið.“

Atkvæðin dreifist víðar

Erfitt hafi reynst að mynda tveggja flokka stjórn í nýju pólitísku umhverfi. Atkvæðin dreifist víðar og átta flokkar séu komnir á Alþingi, sem geri stjórnarmyndun flóknara verkefni en áður.

„En áfram hef ég metnað til að leiða, og er tilbúinn til þess. Besta tryggingin til að geta gert það er að skila góðri niðurstöðu í lok kjörtímabils og uppskera þá í kosningum. Og að því ætlum við að vinna á næstu mánuðum, að fá góða niðurstöðu í kosningunum og ég er bara nokkuð bjartsýnn á að það geti gengið eftir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert