Gapandi á málflutningi ÍL-sjóðs

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segist gapandi yfir málflutningi ÍL-sjóðs, fyrir Hæstarétti í dag, þar sem tekist var á um lögmæti uppgreiðslugjalds Íbúðalánasjóðs sáluga. 

Hjón sem tóku lán hjá sjóðnum fyrir íbúðarkaupum fóru í morgun með málið í fimmta sinn fyrir dómsstóla, en því var áfrýjað til Hæstaréttar í annað sinn.

Fyrir liggur að fullnægjandi upplýsingar um uppgreiðslugjald lágu ekki fyrir í lánasamningi hjónanna og að um fimmtán sambærileg mál hafa verið kærð í héraði.

Umfang mála liggur ekki fyrir

„Í fyrsta lagi er ég gapandi yfir því að það vanti skilmála í lánasamning og að málflutningi sé haldið til streitu eins og skilmálarnir væru fyrir hendi,“ segir Breki Karlsson í samtali við mbl.is en hann sat málflutninginn í morgun.  

„Eftir fjögur ár er ekki enn vitað hversu mörg mál þetta eru, á hvaða tímabili þetta klikkaði eða hvenær þessu var komið í lag,“ segir hann enn frekar, en lögmaður ÍL-sjóðs var spurður sérstaklega út í þetta í málflutningi í dag. 

Þannig liggur hvorki fyrir á hversu mörg mál niðurstaða Hæstaréttar gæti haft áhrif, né hversu miklir fjármunir eru undir fyrir ÍL-sjóð.

Meðal þess sem tekist var á um í málflutningi í dag er hvort að uppgreiðslugjald falli undir skilgreiningu lántökugjalds og þannig undir upplýsingaskildu lánastofnunarinnar. Hvort að hjónunum hafi samt sem áður mátt vera ljóst hvernig uppgreiðslugjald yrði reiknað, kæmi til þess og hvort að þau hefðu tekið lánið hvort sem að það lægi fyrir eða ekki.

„En ég er yfir höfuð hissa á því að fara fram með vörn sem byggir á skilmálum sem ekki eru til staðar.“

Jónas Fr. Jónsson, lögmaður hjónanna sem málið sækja, afþakkaði að tjá sig um málið. Búast má við niðurstöðu málsins innan fjögurra vikna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert