Njósnari leysir frá skjóðunni

Landsvæðið sem skilur að Suður- og Norður-Kóreu.
Landsvæðið sem skilur að Suður- og Norður-Kóreu. AFP

Norðurkóreskur njósnari, sem flúði til Suður-Kóreu fyrir sjö árum, opnaði sig nýlega um starf sitt fyrir norðurkóresk yfirvöld. Kveðst hann meðal annars hafa fyrirskipað morð, tekið þátt í að skipuleggja árásir, haldið leyndarmálum og komið á fót ólöglegri eiturlyfjaframleiðslu, allt til að þjóna æðsta leiðtoganum.

Viðtalið birtist við manninn á vef BBC.

Maðurinn kom ekki fram undir nafni í viðtalinu og er hann ávarpaður þar sem Mr. Kim. Hann vann í þrjá áratugi fyrir leyniþjónustur sem þjónuðu æðsta leiðtoga Norður-Kóreu. Býr hann nú í Seoul þar sem hann starfar fyrir suðurkóreska leyniþjónustu en hann flúði þangað árið 2014 þegar hann taldi líf sitt og fjölskyldu sinnar vera í hættu.

Hryðjuverk pólitískt tól stjórnvalda

Í viðtalinu lýsir Mr. Kim því hvernig norðurkóresk stjórnvöld nýttu hryðjuverk sem pólitískt verkfæri sem átti að vernda æðstu leiðtogana, fyrst Kim Jong-il og seinna son hans og arftaka, Kim Jong-un.

Segir hann m.a. frá hvernig hann stýrði verkefni árið 2009 sem miðaði að því að taka fyrrverandi norðurkóreskan embættismann af lífi sem hafði flúið yfir til Suður-Kóreu. Morðtilræðið misheppnaðist þó og voru tveir norðurkóreskir yfirmenn í hernum handteknir og sitja þeir enn í fangelsi. Hafa yfirvöld í Norður-Kóreu lengi sakað nágranna sína í Suður-Kóreu um að sviðsetja árásina en samkvæmt upplýsingum Mr. Kim stenst það ekki.

Þetta var þó ekki eina árásin sem Mr. Kim segir Norður-Kóreu bera ábyrgð á, sem norðurkóresk yfirvöld hafa neitað að gangast við. Árið 2010 var suðurkóreska herskipinu Cheonan sökkt með tundurskeyti, 46 manns létu lífið. Í nóvember sama ár létust síðan tveir suðurkóreskir hermenn og tveir óbreyttir borgarar í skothríð á eyjunni Yeongpyeong.

Að sögn Mr. Kim hefði ekki verið hægt að framkvæma þessar aðgerðir nema eftir óskum æðsta leiðtogans. 

„Í Norður-Kóreu eru vegir ekki lagðir nema með samþykki æðsta leiðtogans. Tundurskeytaárásin á Cheonan eða skotárásin á Yeongpyeong-eyjuna eru ekki framkvæmdir sem undirmenn hefðu lagt af stað í [...] svona hernaðarvinna er skipulögð eftir óskum Kim Jong-un,“ sagði Mr. Kim.

Njósnað um Suður-Kóreu

Eitt af verkefnum Mr. Kim var að móta áætlanir sem miðuðu að því að ná pólitísku valdi á Suður-Kóreu. Fól það meðal annars í sér að koma fyrir njósnurum í þeirra raðir.

Kveðst hann hafa sent marga njósnara í mismunandi verkefni. Var meðal annars einn sem fór og var fimm til sex ár að vinna fyrir forsetaskrifstofu Suður-Kóreu á tíunda áratugnum. Maðurinn sneri síðan aftur seinna, heill á húfi og hélt áfram að vinna fyrir norðurkóresk yfirvöld.

Segist Mr. Kim geta staðfest að norðurkóreskir starfsmenn séu nú að störfum hjá ýmsum mikilvægum stofnunum í Suður-Kóreu.

Þykir þó líklegt Norður-Kórea reiði sig sífellt minna á njósnara og sífellt meira á upplýsingatækni og njósnabúnað. Er þá talið að norðurkóresk yfirvöld búi yfir her af sex þúsund afar færum tölvuþrjótum sem hafa hlotið afar sértæka þjálfun.

Eiturlyf til að fjármagna lífsstíl leiðtoganna

Ólíkt meginþorra þjóðarinnar bjó Mr. Kim við mikinn munað. Hann hafði afnot af Mercedes-Benz bíl í eigu frænku Kim Jong-un og gat ferðast út fyrir landsteinana þar sem hann fékk það verkefni að safna fé fyrir leiðtoga sinn.

Erlendis seldi hann sjaldgæfa málma og kol, og kom hann iðulega til baka með ferðatöskur stútfullar af seðlum. Auk þess stýrði hann einnig fjáröflun sem fól í sér framleiðslu og sölu amfetamíns.

Að sögn Mr. Kim fór þó peningurinn úr þeirri starfsemi ekki í að styrkja innviði eða hjálpa fólkinu í landinu heldur var honum varið í óhóflegan lífsstíl leiðtoganna, bæði Kim Jong-il og Kim Jong-un. Fóru fjármunirnir í bíla, glæsileg hús, mat, föt og annan munað. 

Á meðan ríkti mikil hungursneyð í landinu og er talið að þúsundir, ef ekki milljónir manna hafi látið lífið vegna skorts á tíunda áratugnum.

Pólitísk tengsl settu hann í hættu

Mr. Kim bjó yfir öflugu pólitísku tengslaneti sem gerði honum kleift að færa sig um set milli ólíkra leyniþjónustustofnana. Þessi sömu tengsl stofnuðu þó fjölskyldu hans einnig í hættu en háttsettir einstaklingar innan Norður-Kóreu voru ekki ávallt öruggir. Sem dæmi nefnir Mr. Kim að Kim Jong-un hafi fyrirskipað aftöku á frænda sínum, Jang Song-thaek, vegna vinsælda hans.

Aftakan á Song-thaek árið 2013 var mikið áfall fyrir Mr. Kim sem taldi líf sitt ekki lengur öruggt. Ákvað hann þá að flýja með allri fjölskyldu sinni yfir til Suður-Kóreu, sem hann svo gerði ári seinna.

„Að flýja landið mitt, þar sem forfeður mínir liggja og fjölskylda er, og fara yfir til Suður-Kóreu, sem á þeim tíma var framandi land fyrir mér, var vond, sorgarfull ákvörðun,“ sagði Mr. Kim.

Meira en 30 þúsund manns hafa farið frá Norður-Kóreu yfir til Suður-Kóreu. Eftir því sem einstaklingar eru hærra settir, því meiri ógn steðjar að fjölskyldu þeirra.

Að sögn Mr. Kim hefur upprunalandið hans breyst lítið frá því að hann flúði á sínum tíma. Segir hann pólitísku hlið samfélagsins, dómgreind íbúanna og hugsanaferli allt, fylgja þeirri sannfæringu að vera hliðholl leiðtoganum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert