Grant Thornton í Bandaríkjunum hefur átt í viðræðum um mögulega yfirtöku á aðildarfélögum Grant Thornton í Bretlandi og á Írlandi. Ef af þessu verður, þá yrði einn stærsti samruni í ráðgjafar- og endurskoðunargeiranum til þessa, að því er segir í frétt Financial Times.
Samruninn fæli í sér að meðeigendur Grant Thornton í Bretlandi og +a Írlandi myndu eignast hlut í bandaríska félaginu.
Forviðræðurnar koma í kjölfar þess að hópur fjárfesta, leiddur af fjárfestingarfélaginu New Mountain Capital, keypti 60% hlut í Grant Thornton US fyrir 1,4 milljarða dala í maí síðastliðnum.
Bandaríska félagið hefur m.a. haft til skoðunar að stækka við sig erlendis til að hraða vexti ráðgjafar- og endurskoðunarstarfsemi sinni, m.a. með yfirtökum á aðildarfélögum í alþjóðlegu neti Grant Thornton, samkvæmt heimildarmönnum FT.
Þeir árétta þó að viðræðurnar við aðildarfélög Grant Thornton í Bretlandi og Írlandi séu á fyrstu stigum og að óvíst sé að af samrunanum verði.
Í vikunni greindi Bloomberg frá því að Grant Thornton í Bretlandi hefði ráðið fjárfestingarbankann Rothschild til að kanna möguleika varðandi eignarhald félagsins, þar á meðal mögulega sölu til framtaksfjárfesta (e. private equity firms) sem hafa í auknum mæli horft til þessa geira að undanförnu.
Grant Thornton á Írlandi hefur ráðið Deutsche Bank í sama tilgangi.