Víkingar jöfnuðu í blálokin í toppslagnum

Haukur Páll Sigurðsson og Rasmus Christiansen hafa gætur á Nikolaj …
Haukur Páll Sigurðsson og Rasmus Christiansen hafa gætur á Nikolaj Hansen í vítateig Vals. Hansen náði að snúa á þá í lok leiksins og jafna metin fyrir Víking. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valur og Víkingur úr Reykjavík skildu jafnir, 1:1, í toppslag í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. Víkingur jafnaði á fimmtu mínútu uppbótartímans.

Liðin fengu fá færi í rólegum fyrri hálfleik, þótt Víkingur hafi verið sterkari aðilinn. Halldór Jón Sigurður Þórðarson fékk besta færi fyrri hálfleiks er hann slapp inn fyrir vörn Vals en Hannes Halldórsson varði mjög vel. Valsmenn fengu nánast engin færi í seinni hálfleik og var staðan í leikhléi því 0:0.

Sú staða breyttist í 1:0 fyrir Val á 57. mínútu þegar Kaj Leo í Bartalsstovu fékk boltann á hægri kantinum, skipti yfir á vinstri löppina og setti boltann stórglæsilega í bláhornið fjær.

Víkingar fengu færi til að jafna metin og það besta fékk Kristall Máni Ingason þegar hann bjó sér til gott færi í teignum en skaut beint á Hannes Þór í markinu. Annar varamaður Logi Tómasson fékk svipað færi stuttu seinna en aftur var Hannes vel staðsettur og varði vel.

Víkingur neitaði að gefast upp og hélt áfram að pressa á Valsmenn. Það skilaði sér í jöfnunarmarki á fimmtu mínútu uppbótartímans er Nikolaj Hansen skoraði af stuttu færi og þar við sat.

Verðskuldað stig Víkinga

Jöfnunarmark Víkinga var verðskuldað. Gestirnir voru heilt yfir betri, pressuðu meira og sköpuðu sér fleiri og betri færi. Víkingar voru alltaf líklegri til að jafna en Valur að bæta við eftir að Kaj Leo skoraði. 

Valsmenn hafa komist upp með að spila þokkalega og varla farið upp úr öðrum eða þriðja gír í sumar. Það virtist ætla að ganga enn og aftur í kvöld, en Víkingar eru seigir og þetta eru góð úrslit fyrir Íslandsmótið. Með sigri hefði Valur náð fimm stiga forskoti á toppi deildarinnar, en þess í stað stefnir í spennandi baráttu áfram. 

Arnar Gunnlaugsson vann ákveðinn sigur á Heimi Guðjónssyni á hliðarlínunni á lokakaflanum. Allir fjórir varamenn Víkinga komu með mikinn kraft í liðið á meðan varamenn Vals, sem áttu fyrst og fremst að reyna að drepa leikinn og sigla sigirnum í hús, gerðu lítið til að minnka pressu Víkinga. 

Valur 1:1 Víkingur R. opna loka
90. mín. Karl Friðleifur gerir virkilega vel í að bjarga eftir stórhæsttulega stungusendingu hjá Valsmönnum. Birkir átti fyrirgjöf ætlaða Pedersen þegar Karl kom með virkilega góða tæklingu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert