„Get ekki sagt að ég sé fyllilega sáttur“

Georginio Wijnaldum skýtur að marki í leik PSG gegn Club …
Georginio Wijnaldum skýtur að marki í leik PSG gegn Club Brugge í Meistaradeild Evrópu í síðasta mánuði. AFP

Hollenski miðjumaðurinn Georginio Wijnaldum er ekki ánægður með stöðu sína sem varaskeifa hjá franska stórliðinu París Saint-Germain enda ekki það sem hann bjóst við þegar hann skipti frá Liverpool í sumar.

Wijnaldum var lykilmaður á miðju Liverpool í fimm ár þar sem hann vann fjóra titla undir Jürgen Klopp en hefur þurft að láta sér það lynda að vera oftar en ekki á varamannabekk PSG á tímabilinu.

„Ég get ekki sagt að ég sé fyllilega sáttur því staðan er ekki eins og best verður á kosið. En svona er fótboltinn og ég verð að læra að lifa með þessu.

Ég er baráttumaður. Ég þarf að halda í jákvæðnina og leggja hart að mér til þess að bæta hlutskipti mitt,“ sagði hann í samtali við NOS.

Wijnaldum byrjaði fyrstu fjóra deildarleiki PSG á tímabilinu en hefur síðan þá reynst erfitt að brjóta sér leið í byrjunarliðið. Hann hefur ekki rætt stöðu sína við Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóra PSG.

„Ég hef spilað mjög mikið undanfarin ár, hef alltaf verið í góðu formi og staðið mig mjög vel. Þetta er því eitthvað allt annað og ég verð að venjast því. Ég hlakkaði mikið til næsta stigs á ferli mínum og þá gerist þetta. Það er ansi erfitt,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert