Ekki hægt að keppa við Val og Breiðablik

Frá leiknum á Kópavogsvelli í dag.
Frá leiknum á Kópavogsvelli í dag. mbl.is/Arnþór Birkisson

Nik Anthony Chamberlain, þjálfari Þróttar, var ekki sáttur með frammistöðu liðsins í dag í samtali við blaðamann mbl.is eftir leikinn en Þróttur tapaði 6:1 gegn liði Breiðabliks í lokaumferð Pepsi Max-deild kvenna á Kópavogsvelli.

„Breiðablik var betra í dag. Það er engin spurning. Áttu þennan sigur svo sannarlega skilið. Þær nýttu sér öll okkar mistök í dag en við vorum að gera þetta of auðvelt fyrir þær. Svo nýttum við ekki okkur þær stöður þegar þær gerðu mistök. Það var bara einn af þessum dögum sem ekkert gengur upp.“

Var liðið komið á Laugardalsvöllinn og byrjað að hugsa um úrslitaleikinn í bikarnum gegn Blikum sem fer fram eftir rúmlega tvær vikur?

„Nei, alls ekki. Við ætluðum að mæta til leiks og gefa þeim leik. Við ætluðum að klára þetta á góðum nótum en það varð ekki raunin. En tímabilið í heild sinni hefur verið mjög gott, bara svekkjandi að lokaleikurinn í deildinni hafi endað svona. Þriðja sætið í deildinni er frábær árangur. Ég er mjög ánægður með spilamennsku liðsins í sumar. Yfir þessa 18 leiki í deildinni er ég mjög sáttur. Við tókum stórt skref í rétta átt í sumar með liðið og þriðja sætið er frábær niðurstaða.“

Hvað með næsta tímabil? Hvað getið þið gert til að komast nær liði Vals og Breiðabliks og keppt um Íslandsmeistaratitilinn við þau?

„Það er því miður bara ekki hægt. Valur er með svo mikla peninga eins og staðan er í dag og núna er Breiðablik að fá ansi mikið af peningum fyrir það að komast í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu þannig að það verður afar erfitt fyrir hin liðin í deildinni að keppa við þessi tvö lið á næstu árum án þess að fá fjármagn til þess. Þannig að á næsta tímabili verða þessi tvö lið að berjast um titilinn og hin liðin verða að berjast um þriðja sætið.“

En það er einn leikur eftir á tímabilinu hjá ykkur. Það er bikarúrslitaleikur gegn einmitt Blikum. Þrátt fyrir tapið hér í dag er alltaf möguleiki þegar um bikarleik er að ræða. Þið getið unnið bikarinn, ekki satt?

„Jú, svo sannarlega er möguleiki á því. Við getum gefið öllum liðum alvöru leik. Við gerðum jafntefli við Val fyrr á þessu tímabili og töpuðum naumlega fyrir Blikum í fyrri umferðinni en sigurmark Breiðabliks kom í uppbótartíma. Þannig að ef við sýnum okkar rétta andlit eins og við gerðum í þessum leikjum gegn Val og Breiðablik fyrr á þessu tímabili eigum við möguleika gegn Blikum.

Þetta verður frábær reynsla fyrir leikmenn liðsins og klúbbinn í heild sinni. Það hafa ekki margir í hópnum okkar spilað svona leik, kannski verið í úrslitum í REY Cup en ekki í svona stórum leik. Þannig að við ætlum bara að mæta til leiks í byrjun október og njóta þess að spila okkar bolta og svo sjáum við hverju það skilar okkur í leiknum,“ sagði Nik að lokum við blaðamann mbl.is á Kópavogsvelli í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert