Er eitt þriggja bestu landsliða í Asíu

Halldór Jóhann Sigfússon er á leið á HM í janúar …
Halldór Jóhann Sigfússon er á leið á HM í janúar með landsliðið Barein. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halldór Jóhann Sigfússon er kominn til starfa í Barein en á dögunum var greint frá því að hann hefði verið ráðinn þjálfari karlaliðs Barein í handknattleik. Þótt ekki sé beinlínis um nágrannaríki að ræða er Halldór þriðji Íslendingurinn sem gegnir starfinu. Á undan hafa gengið Guðmundur Þ. Guðmundsson og Aron Kristjánsson.

„Þetta er mikið tækifæri fyrir mig og mikill heiður fyrir íslenskan handbolta þegar við fáum landsliðsþjálfarastarf. Ég nýt góðs af frábærri vinnu Gumma og Arons. Nú er mitt hlutverk að halda sama skipulagi og verið hefur síðustu ár. Það var gaman að koma hingað aftur og finna hlýjar móttökur. Það var mikilvægt en nú tekur við mikil vinna í tvo mánuði,“ sagði Halldór þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í vikunni. Handknattleikssambandið í Barein tók þá ákvörðun að segja Þjóðverjanum Michael Roth upp störfum. Hann sinnti starfinu í skamman tíma eftir að Aron þurfti að gefa það frá sér vegna vinnu sinnar hjá Haukum.

Selfyssingar skilningsríkir

Barein verður með í lokakeppni HM í janúar og liðið verður einnig á Ólympíuleikunum í Japan í fyrsta skipti í sögunni. Til að byrja með réð Halldór Jóhann sig til skamms tíma og mun undirbúa liðið fyrir HM og stýra því á mótinu. Hann er sem kunnugt er þjálfari Selfoss hér heima.

„Þetta var nú bara þannig að þeir voru ekki nógu ánægðir með þjálfarann sem hafði verið hjá þeim í þennan stutta tíma. Þegar tekin var ákvörðun um að láta hann fara þá fór málið af stað. Þeir höfðu reyndar áhuga á að ráða þjálfara til lengri tíma sem yrði í Barein. En það var ekki möguleiki og var ein ástæða þess að Aron Kristjánsson afþakkaði starfið. Hann gat ekki verið í burtu í svo langan tíma og gat ekki heldur stokkið inn í verkefnið núna til að stjórna liðinu á HM. Þeir höfðu samband við mig og ég vissi svo sem að hér hefði verið óánægja í kringum landsliðið undanfarið.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert