Brennur í skinninu að fá að byrja

Guðmundur Þ. Guðmundsson.
Guðmundur Þ. Guðmundsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Þ. Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik, segist finna fyrir eldmóði í landsliðshópnum sem heldur til Ungverjalands á morgun til að keppa fyrir Íslands hönd í lokakeppni EM. 

„Undirbúningurinn hefur gengið nokkuð vel. Vonandi reynist rétt ákvörðun að hafa farið með liðið í vinnustaðasóttkví inn á hótel. Við höfum alla vega ekki lent í því að fá smit eins og sum lið hafa lent í. Við höfum æft mjög vel og stundum tvisvar á dag. Við höfum unnið í öllum þáttum. Sóknarleikur gegn mismunandi vörnum skoðaður og við höfum einnig unnið í varnarleiknum. Það hefur vefur verið stígandi í þessu hjá okkur að mér finnst,“ sagði Guðmundur á blaðamannafundi HSÍ í dag. 

Hann hrósaði landsliðsmönnunum mjög fyrir hve vel þeir hafi unnið úr þeirri stöðu sem liðið hefur verið í frá því það kom saman. Liðið hefur verið í sóttkví á hóteli og sjaldan farið út nema til að fara á æfingar í Víkinni. 

„Leikmennirnir eru mjög einbeittir og hafa gert þetta einstaklega faglega. Auðvitað hefur reynt á menn að vera í hálfgerðri einangrun en ég verð að hrósa leikmönnum fyrir hversu faglega þeir hafa nálgast þetta.

Ég finn fyrir því að það er eldmóður er í hópnum og ofboðslega góður andi. Ég held að leikmenn hafi líka kynnst betur í þessum aðstæðum. Menn eru fullir tilhlökkunar. Eins og leikmenn hlakka ég til að glíma við þetta. En við þurfum að spila vel til að ná úrslitum. Þetta er sterkt mót og það eru engin slök lið á EM.

Elvar Örn Jónsson. Arnar Freyr Arnarsson og Bjarki Már Elísson …
Elvar Örn Jónsson. Arnar Freyr Arnarsson og Bjarki Már Elísson laufléttir á landsliðsæfingu. Andinn í hópnum er einstaklega góður að mati Guðmundar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrsti leikurinn á EM er gegn Portúgal. Liði sem Íslendingar hafa ítrekið mætt á allra síðustu árum. „Við stefnum auðvitað á sigur í fyrsta leiknum. Þetta eru þrír mikilvægir leikir í riðlinum og við fókusum ekki bara á Portúgal. Það er mikilvægt að byrja vel og við erum vel stemmdir. Þetta hefur verið langur tími og ég held að allir séu fegnir því að komast af stað. Maður brennur í skinninu að fá að byrja þetta.“ 

Meira æft fyrst leikina vantar

Eins og fram hefur komið varð ekkert úr því að Litháar kæmu til landsins eins og til stóð. Ísland átti að spila tvo vínáttuleiki gegn Litháen. Áttu það að vera undirbúningsleikirnir fyrir mótið en flókið er að ferðast og fá leiki vegna heimsfaraldursins. Liðið spilaði til dæmis ekki leiki þegar það kom saman til æfinga í nóvember. 

„Það er engin óskastaða að spila ekki vináttulandsleikina. Við getum ekki breytt því. Við höfum séð að aðrar þjóðir reyna eins og þær mögulega geta til að spila. Vonandi verður þetta nægilega góður undirbúningur fyrir mótið. 

Það var ekki gott að fá ekki leikina gegn Litháen en höfum æft meira í staðinn. Við höfum reynt að spila á æfingum og settum upp leik innan hópsins með dómurum til að nálgast það að spila vináttuleik,“ benti Guðmundur á og segir engin alvarleg meiðsli herja á landsliðsmennina um þessar mundir.

Ólafur Guðmundsson og samherjar í landsliðinu hafa leikið marga mótsleiki …
Ólafur Guðmundsson og samherjar í landsliðinu hafa leikið marga mótsleiki gegn Portúgal á síðustu tveimur árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

 

„Allir leikmenn eru heilir. Sigvaldi hefur glímt við meiðsli í töluverðan tíma eins og Gísli og Janus. En það er allt á réttri leið og ég sé ekki annað en að þeir séu komnir yfir það eða nánast. Hjá okkur eru því engin stórvægileg meiðsli eða stór vandamál. Það er mjög jákvætt. Við erum komnir í gegnum síðustu æfinguna áfallalaust. Stór hluti af pakkanum er að geta tekið vel á því en komast í gegnum það án áfalla eða með fá skakkaföll,“ sagði Guðmundur en síðasta æfing landsliðsins hér heima fyrir EM var í morgun. Einn leikmaður datt úr vegna heiðsla í æfingatörninni eins og greint hefur verið frá. Sveinn Jóhannsson meiddist og Daníel Þór Ingason kom inn í staðinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert