45 einstaklingar í áhættuhópum smitaðir

45 einstaklingar í áhættuhópum eru í eftirliti Covid-göngudeildar Landspítala. Þar er eftirlit haft með fólki sem greinst hefur smitað af Covid-19. Umræddir einstaklingar eru sem stendur flestir flokkaðir sem grænir, þ.e. með lítil eða engin einkenni, en göngudeildin fylgist með líðan fólksins.

609 eru í eftirliti göngudeildarinnar, um 16 eru merktir sem gulir, þ.e. með miðlungsalvarleg einkenni en enginn er merktur sem rauður, þ.e. með alvarleg einkenni, sem stendur. Inni í þessum tölum eru ekki þeir þrír sem eru á spítala vegna Covid-19.

Flestir þeirra sem greinst hafa smitaðir undanfarið voru bólusettir gegn Covid-19 við greiningu. Bólusetningin er talin koma í veg fyrir alvarleg veikindi í flestum tilvikum.

„45 einstaklingar sem eru í eftirliti hjá okkur eru með undirliggjandi áhættuþætti. Margir þeirra flokkast grænir byggt á einkennum. Við erum að bíða og sjá hvernig þeim reiðir af í gegnum þetta ferli. Alvarleg einkenni koma ekki fram fyrr en eftir vikutíma og því er þessi óvissa áfram. Eftir því sem tíminn líður fáum við skýrari mynd af því hvernig þessu fólki reiðir af,“ segir Runólfur Pálsson, yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítala.

Aðspurður segir hann allan gang á því hvort fólk sem hefur verið flokkað sem gult eða rautt undanfarið sé með undirliggjandi áhættuþætti hvað varðar Covid-19. Í þeim hópum hafa verið ungir og hraustir einstaklingar. 

Engar innlagnir yfirvofandi sem stendur

Það er væntanlega verulega mikið álag á göngudeildinni?

„Já, þetta hefur verið svo bratt, þessi mikla fjölgun. Við þurfum að meta alla með símtali sem tekur tíma. Það þarf að fá mikið af upplýsingum. Þannig höfum við getað lagt mat á ástand fólksins og áhættu þannig að það er tímafrekt. Svo eru ýmis önnur verkefni, sýnatökur og annað. Svo kemur einn og einn til skoðunar, við skoðum þessa gulu, en það hefur ekki leitt til fleiri innlagna síðustu daga,“ segir Runólfur.

Engar innlagnir vegna Covid-19 eru yfirvofandi sem stendur, en þrír liggja á spítala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert