Neytendur

Sekta Orku­söluna vegna flutninga við­skipta­vina til sín án sam­þykkis

Atli Ísleifsson skrifar
Brotin fólu í sér flutning tiltekinna viðskiptavina Orku náttúrunnar yfir til Orkusölunnar án þess að fyrir lægi samþykki þeirra.
Brotin fólu í sér flutning tiltekinna viðskiptavina Orku náttúrunnar yfir til Orkusölunnar án þess að fyrir lægi samþykki þeirra. Vísir/Vilhelm

Neytendastofa hefur sektað Orkusöluna um 400 þúsund krónur fyrir að hafa flutt viðskiptavini annars fyrirtækis yfir til sín án þess að fyrir lægi samþykki þeirra. Auk þess var upplýsingagjöf Orkusölunnar til nýrra viðskiptavina talin vera brot gegn góðum viðskiptaháttum.

Neytendastofa tók málið til skoðunar eftir að kvörtun barst frá Orku náttúrunnar. Orkusalan svaraði því til að um tímabundnar markaðsaðgerðir hafi verið að ræða þar sem nýjum notendum hafi verið boðið tilboð.

„Þeir notendur sem þáðu tilboðið og vildu færa sig yfir í viðskipti til Orkusölunnar voru skráðir niður og í framhaldinu leitaði Orkusalan upplýsinga um umrædda notendur og tilkynnti um söluaðilaskiptin til dreifiveitu. Samhliða tilkynningunni um söluaðilaskipti var notendum sendur staðfestingarpóstur þar sem þeir voru boðnir velkomnir í viðskipti við Orkusöluna. Í staðfestingarpóstinum hafi komið fram upplýsingar um félagið ásamt tilvísun til viðskiptaskilmála þar sem væri að finna nánari upplýsingar um fyrirkomulag greiðslna, afhendingu, uppsögn samnings o.fl., þar á meðal að greiðsla fyrsta reiknings væri talin formleg staðfesting á viðskiptasambandinu.

Við úrlausn málsins sýndi Orkusalan ekki fram á að upplýsingagjöf vegna fjarsölunnar hafi verið framkvæmd með fullnægjandi hætti. Þá gat Orkusalan ekki sýnt fram á að notendurnir hafi viljað flytja viðskipti sín,“ segir um ákvörðun Neytendastofu á vef stofnunarinnar.

Fullnægðu ekki upplýsingaskyldu

Stofnunin hafi þá komist að þeirri niðurstöðu að Orkusalan hafi brotið gegn góðum viðskiptaháttum með því að færa viðskiptavini án upplýsts samþykkis þeirra.

Þá komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að félagið hafi brotið gegn góðum viðskiptaháttum með því að fullnægja ekki upplýsingaskyldu sinni gagnvart nýjum viðskiptavinum við og í kjölfar fjarsölu. Loks vísar stofnunin til þess að ekki sé hægt að fallast á sjónarmið Orkusölunnar að með greiðslu fyrsta reiknings sé staðfest gildi samnings.

Í ljósi þessa taldi Neytendastofa rétt að sekta Orkusöluna um 400 þúsund krónur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×