Bensínverð í Evrópu hefur ekki verið hærra í fjóra mánuði eftir að hafa tekið 8% stökk fyrr í dag þegar tilkynnt var að norska ríkisolíufélagið Equinor þyrfti að loka þremur olíu- og gasborpöllum vegna verkfalla.

Í frétt Financial Times um málið segir að Evrópa hafi litið til Noregs sem bjargvættar eftir að lokað var á mestöll olíukaup frá Rússlandi.

Framleiðsla upp á 89 þúsund olíutunnur á dag verður fyrir áhrifum verkfallanna, sem hófust í gærkvöldi, og verkalýðsfélagið hótar frekari aðgerðum á næstu dögum sem gætu minnkað olíuútflutning landsins um 13% samkvæmt samtökum olíu- og gasframleiðenda þar í landi.

Framleiðsluskerðingin kemur á versta tíma fyrir heimsálfuna, sem hefur horft upp á gríðarlegar hækkanir orkuverðs, meðal annars fimmföldun bensínverðs í heildsölu milli ára eftir, að Rússland hóf innrás sína í Úkraínu nú í vor.

Noregur er stærsti seljandi olíu til Evrópu að Rússlandi undanskildu með fimmtungs til fjórðungs hlutdeild af markaðnum.