Á Íslandi breytast myndirnar stöðugt

Tolli Morthens listmálari.
Tolli Morthens listmálari. mbl.is/Sigurður Bogi

„Veður, birta, gróður, árstíðir og eldgos, allt setur þetta sinn svip á náttúruna. Frá degi til dags greinum við ekki svo glöggt breytingarnar á landinu, skilningur okkar á því verður bestur ef við komum á staði á nokkurra ára fresti. Annars er engu líkt hve víða hér á landi sést frá einum punkti til jökuls, skóga, stórfljóta, eldfjalla og jafnvel út á haf. Þetta er einstakt,“ segir listmálarinn Tolli Morthens.

Nýlega flutti Tolli vinnustofu sína í nýtt hús á Koparsléttu á Esjumelum á Kjalarnesi. Iðnaðarstarfsemi er áberandi í hverfinu; vinnuvélar, járndót og fleira slíkt, en misjafnt er hvað helst vekur eftirtekt því þegar Morgunblaðið kom við á sléttunni í gær talaði listamaðurinn um náttúru og staðhætti. Jafnvel þótt Esjan væri falin í þoku.

Eldur, vatn og vindur

„Niðri í bæ greinir maður ekki hve mikill fjallabálkur Esjan er, að ég tali nú ekki um Kistufellið. Hér á Kjalarnesi er þetta í návígi. Hér finnst mér ég stundum vera kominn á Ísafjörð þar sem fjöllin gnæfa yfir bæinn,“ segir Tolli og heldur áfram:

„Á hásléttum Kína og Tíbets er ferðast svo dögum skiptir í sama mótífi. Á Íslandi breytast myndirnar stöðugt og í jörðu eru fæðingarhríðir eins og við höfum fylgst með á Reykjanesskaganum að undanförnu. Eldur, vatn og vindur eru element í auðninni þar sem nærri er oft litsterk flóra.“

Einstaklingshyggja fjalla

Sem myndlistarmaður hefur Tolli einkum málað stórar landslagsmyndir; fleka sem taka jafnvel heila veggi. Ekki minna en tugur mynda af Herðubreið – þjóðarfjalli Íslendinga – er á vinnustofunni og flestar þeirra eru splunkunýjar.

„Ég er gagntekinn af Herðubreið, sem ég hef bæði gengið á og horfi til á sléttunni. Sé alltaf nýja vinkla í Herðubreið, sem er bæði malerísk og formfögur. Í hindúatrú fylgir fjallinu Shivá austur í Tíbet mikill átrúnaður og væri Ísland ögn sunnar á hnettinum myndi hið sama gilda um Herðubreið. Svo er ég líka heillaður af Lómagnúpi, fjalli sem oft er baðað einstakri birtu. Fá fjöll er skemmtilegra að mála en Herðubreið og Lómagnúp og einstaklingshyggja er góð lýsing á því hve sterkt þau skera sig úr.“

Kraftar streyma

Nú er hásumar og landinn á faraldsfæti. Tolli ætlar nú í vikunni austur á land og leita þar að myndefnum. Hyggst stoppa víða á suðurströndinni, á Austfjörðum, Möðrudalsöræfum og í Ásbyrgi. Vatnslitaferð er svo áformuð í haust.

„Frá því um 25. september og fram í miðjan október eru andstæðurnar miklar,“ segir Tolli. „Skuggarnir sterkir, ljósið oft dramatískt og litapallettan falleg. Anatómían í landinu er aldrei sterkari en á haustin. Annars er náttúran fyrir mér eins og musteri í andlegu ferðalagi. Þegar ég var að koma úr krabbameinsmeðferð og taka mín fyrstu skref í bata var geggjað að fara út, liggja milli þúfna, anda í sárið og finna dásamlega krafta jarðar streyma í gegnum líkamann. Líf okkar er í sterku samhengi við jörðina og stór misskilningur margra er að telja þetta aðskilið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert