Sunna Dís hlaut Ljóðstafinn

Ljóðstafinn hlaut Sunna Dís Másdóttir fyrir ljóðið Á eftir þegar …
Ljóðstafinn hlaut Sunna Dís Másdóttir fyrir ljóðið Á eftir þegar þú ert búin að deyja. Ljósmynd/Lista- og menningarráð Kópavogs

Sunna Dís Másdóttir hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör við athöfn í Salnum í Kópavogi fyrir ljóðið Á eftir þegar þú ert búin að deyja. Ljóðið þótti einstaklega vel heppnað prósaljóð að mati dómnefndar, að því er fram kemur í tilkynningu frá lista- og menningarráði Kópavogs.

Þá hlaut Solveig Thoroddsen önnur verðlaun fyrir ljóðið Lok vinnudags í sláturtíð og þriðju verðlaun hlaut Helga Ferdinandsdóttir fyrir ljóðið Annað líf

Ljóðstafur Jóns úr Vör er haldinn af Lista- og menningarráði Kópavogsbæjar en efnt var til samkepninnar fyrst árið 2001 í minningu skáldsins Jóns úr Vör (1917- 2000). 

230 ljóð bárust í keppnina að þessu sinni í ár en ljóðin mega ekki hafa birst áður og skulu send inn undir dulnefni höfundar. Dómnefnd skipuðu að þessu sinni Kristín Svava Tómasdóttir (formaður), Anton Helgi Jónsson og Þórdís Helgadóttir. 

Sjö hlutu sérstaka viðurkenningu

Sjö ljóð hlutu að auki sérstaka viðurkenningu dómnefndar: Hinir dauðu eftir Stefán Snævarr, Í fyrsta sinn sem þú býrð á Íslandi eftir Karólínu Rós Ólafsdóttur, Rabarbarapæ eftir Solveigu Thoroddsen, Skuggsveinn eftir Theódór KR. Þórðarson, Villisveppir í prioyat eftir Sunnu Dís Másdóttur, Vorvindar eftir Pétur Eggerz og Þú segist ekki vera sterkur og það er satt eftir Sölva Halldórsson.

Við sama tilefni voru veitt verðlaun í Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs sem fyrst var haldin árið 2012 og var dómnefnd sú sama. Þar hlaut fyrstu verðlaun Alexander Aron Karenarson, 9. bekk í Lindaskóla, fyrir ljóðið Krónublöð. Önnur verðlaun hlaut Heiðar Þórðarson, 9. Bekk í Lindaskóla, fyrir ljóðið Eitt tré og í þriðju verðlaun hlaut Þorbjörn Úlfur Viðarsson, 8. bekk í Álfhólsskóla, fyrir ljóðið Óður.

Viðurkenningar hlutu Ragnhildur Una Bjarnadóttir, Þórunn Ása Snorradóttir, Freyja Kirstine Jónasdóttir, Heiða Kristín Eiríksdóttir, Ólöf Inga Pálsdóttir, Alexander Aron Karenarson,  Jóhann Emil Óðinsson og Markús Steinn Ásmundsson.

Ljóð Sunnu Dísar má lesa í heild sinni hér að neðan:

Á EFTIR ÞEGAR ÞÚ ERT BÚIN AÐ DEYJA

Á eftir þegar þú ert búin að deyja ætla ég að taka þig með mér héðan, sveipa um þig
dimmrauða teppinu sem þú felur þig undir, hylja þig nepalskri jakuxaull og stinga
tönnunum þínum í vasann. Vatnið drýpur úr svampinum á náttborðinu. Hann er
tannholdsbleikur á hvítum pinna og þú læsir kjálkunum um hann eins og ungbarn um
móðurbrjóst þegar hann strýkst við varir þínar. Fyrsta viðbragðið er það síðasta sem
hverfur. Á eftir þegar þú ert búin að deyja förum við í sirkus og borðum kandíflos sem
límist í góminn klístrast við tannholdið spunninn sykur á pappírsvafningi, hann leysist
upp á tungunni eins og tíminn og ég rétti þér tennurnar og sé hendur þínar verða
fleygar á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka