Rétt ákvörðun að aflýsa ekki miðað við spána

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Það var rétt ákvörðun að fresta ekki eða aflýsa flugi frá Norður-Ameríku í gærmorgun út frá þeim forsendum sem lágu þá fyrir, að mati Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair. Hann segir veðurspána ekki hafa gefið til kynna að veðrið yrði eins slæmt og raungerðist.

Eins og mbl.is greindi frá í gær voru um átta hundruð farþegar fastir um borð í sjö vélum sem komu með félaginu í gærmorgun frá Norður-Ameríku. Vélarnar lentu um sex leytið um morguninn en síðustu farþegarnir gengu frá borði um klukkan sex síðdegis sama dag, eða 12 tímum síðar. 

Á laugardaginn gaf Veðurstofa Íslands út gula veðurviðvörun fyrir Suðurland og Vesturland við Faxaflóa, sem síðar var uppfærð í appelsínugula. Dimmum éljum, slæmu skyggni og hvassviðri var spáð. Á laugardagskvöldið um klukkan hálfsjö var fundur veðuraðgerðarstjórnar Isavia haldinn með flugfélögum og flugþjónustufyrirtækjum.

Veðrið skall fyrr á

„Eins og við erum alltaf að gera, rekandi flugfélag hérna á Íslandi allan ársins hring, þá þarf okkar fólk að rýna í veðurspár og vinna með veðurfræðingum og meta stöðuna. Þarna var útlitið þannig að vélarnar myndu getað komið og farið til Evrópu. Síðan gerist það að veðrið skellur á fyrr með kröftugri vindi en spár höfðu sagt, og aðstæður voru mun erfiðari en spár gerðu ráð fyrir,“ segir Bogi.

Eftir á að hyggja hefði verið betra að aflýsa eða fresta flugi?

„Ef að við hefðum vitað hvenær veðrið kom, hvernig það var og hvernig aðstæður voru, þá hefði það verið betra. En miðað við upplýsingarnar sem voru á borðinu og spárnar, þá var ákvörðunin sem var tekin rétt.

Við höfum unnið þannig undanfarin ár og höfum verið að gera meira af því að bregðast við fyrirfram, aflýsa og þess háttar, ef að spár eru þannig. En þarna var spáin með þeim hætti að þessi ákvörðun var tekin og miðað við forsendurnar sem voru á borðinu að þá voru þetta réttar ákvarðanir. En síðan bara verður raunveruleikinn annar.“

Klósett í flestum tilvikum notkunarhæf

Farþegar Icelandair voru misánægðir með þjónustuna um borð í vélunum á meðan þær voru í biðstöðu á vellinum. Eins og lesa mátti á Twitter í gær kvörtuðu einhverjir undan því að matur og drykkur hefðu klárast. Þá var einnig vandræðagangur með klósett.

„Ég held að í flestum tilvikum hafi verið klósett sem að voru notkunarhæft, einhver matur og þess háttar. Okkar starfsfólk stóð sig algjörlega frábærlega við mjög erfiðar aðstæður. Við hefðum náttúrulega aldrei sent vélarnar af stað ef við hefðum ekki gert ráð fyrir því að þetta myndi ekki ganga upp. Flugvélar vinna það ekkert þannig að það sé verið að hlaða þær með einhverjum öðrum hætti, það er ákveðin hleðsla sem kemst í vélar fyrir flug,“ segir Bogi, spurður hvort að hægt hefði verið að undirbúa vélarnar betur fyrst að útlit var fyrir slæmt veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert