Með yfir 30 rotnandi lík á útfararstofunni

Líkin voru ekki geymd í kæli og öll á mismunandi …
Líkin voru ekki geymd í kæli og öll á mismunandi stigi rotnunar. Ljósmynd/Colourbox

Framkvæmdastjóri útfararstofu í Indiana í Bandaríkjunum, hefur verið ákærður fyrir þjófnað eftir að upp komst að hann rukkaði aðstandendur látinna fyrir þjónustu sem hann veitti ekki. Yfir 30 lík á mismunandi stigi rotnunar fundust á útfararstofunni, ásamt ösku 17 einstaklinga. BBC greinir frá.

Lögreglan hóf rannsókn málsins eftir að tilkynnt var um sterka lykt sem barst frá byggingunni sem hýsir útfararstofuna. Þar fundust svo tugir rotnandi líka sem mörg hver virtust hafa verið á stofunni mánuðum saman, án þess að vera geymd í kæli.

Útfararstjórinn, Randy Lankford, hefur játað brot sín en ákæran er í yfir 40 liðum. Hann gæti átt yfir höfði sér allt að 12 ára fangelsisdóm og þurft að greiða 53 fjölskyldum bætur. Dómur verður kveðinn upp í málinu í júní.

Einhverjar af fjölskyldunum hyggjast jafnframt höfða einkamál á hendur Lankford. Samkvæmt gögnum sem lögð voru fram fram fyrir dómi afhenti hann meðal annars ösku sem fjölskyldur töldu vera af ástvinum sínum, en síðar kom í ljós að svo var ekki. í Sumum tilfellum höfðu líkamsleifar ástvina jafnvel ekki verið brenndar yfir höfuð en í öðrum tilfellum fannst askan á útfararstofunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert