Fyrirliði KR samdi við Val

Rebekka Sverrisdóttir í leik með KR gegn Þrótti síðasta haust.
Rebekka Sverrisdóttir í leik með KR gegn Þrótti síðasta haust. mbl.is/Hákon Pálsson

Rebekka Sverrisdóttir, fyrirliði kvennaliðs KR í knattspyrnu síðustu ár, er gengin til liðs við Íslands- og bikarmeistara Vals og samdi við félagið til eins árs.

Rebekka, sem er þrítug og leikur sem varnarmaður, snýr þar með aftur á Hlíðarenda en hún lék með Val á árunum 2014 til 2016 en hefur annars leikið allan sinn feril með KR.

Hún hefur spilað alla deildarleiki KR undanfarin tvö ár, þegar liðið vann sig upp úr 1. deildinni árið 2021 og í Bestu deildinni á síðasta ári en þar endaði KR hins vegar í neðsta sæti og féll á ný.

Rebekka hefur leikið 114 leiki í efstu deild og hún spilaði á sínum tíma 16 leiki með yngri landsliðum Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert