Stjórn norska lágfargjaldaflugfélagsins Flyr tilkynnti í kvöld að félagið muni leggja inn beiðni um gjaldþrotaskipti á morgun eftir að því tókst ekki að afla aukins hlutafjár. Stjórnin segir ekki raunhæft úr þessu að leysa lausafjárvanda félagsins.

Flyr, sem hóf starfsemi í júní 2021, hefur nú aflýst öllum brottförum og lagt niður alla miðasölu. Fleiri en 400 starfsmenn flugfélagsins munu missa vinnuna.

„Þetta er sorgardagur. Við reyndum. Við gerðum allt sem við gátum en því miður var það ekki nóg,“ hefur E24 eftir stofnandanum og stjórnarformanninum Erik Braathen. Hann bað jafnframt starfsmenn, hluthafa og ferðamenn sem áttu bókaðan miða með félaginu afsökunar.

Floti Flyr inniheldur tólf Boeing þotur af gerðum 737-800 og Max 737 8.

Í umfjöllun E24 segir að frá stofnun hafi Flyr stöðugt þurft að sækjast eftir auknu fjármagni. Félagið sótti 250 milljónir norskra króna, eða yfir 3 milljarða íslenskra króna, í haust. Flugfélagið vantaði þó aukið fé, m.a. til að borga fyrir ETF-kolefnisheimildir.

Næsta skref fjármögnunaráætlunar Flyr reyndist ekki fýsilegt þar sem hlutabréfaverð félagsins var of lágt. Stjórnendur félagsins hafa í nokkrar vikur leitað annarra leiða til að sækja fjármagn en þær tilraunir báru ekki árangur.