„Þarf að geta tekið óþægilegar ákvarðanir“

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, segir að forseti Íslands þurfi að geta tekið óþægilegar ákvarðanir í stað þess að sitja á friðarstóli á örlagatímum.

Þetta sagði Ólafur Ragnar í viðtali við Sigríði Hagalín Björnsdóttur í Silfrinu á RÚV í gærkvöld. Forsetakosningar fara fram á hér á landi í sumar og hafa fjölmargir ákveðið að bjóða sig fram til embættisins.

„Ég er blessunarlega í þeirri stöðu að geta leyft mér að hafa ekki neinar skoðanir á þeim sem bjóða sig fram til embættisins á sama hátt og ég hef ekki tekið þátt í umræðum um verk einstakra ríkisstjórna eða ráðherra síðan ég lét ef embættinu,“ sagði Ólafur meðal annars í viðtalinu.

Hann sagði þá tíma hafa komið í sögu lýðveldisins að forsetinn hefði þurft að koma að lausn erfiðra stjórnmálaverkefna og skapa stöðugleika.

Ríkur þáttur í stjórnskipun lýðveldisins

„Forsetinn er ríkur þáttur í stjórnskipun lýðveldisins. Margir þekkja málskotsréttinn og hvernig honum hefur verið beitt og sá sem gegnir embættinu þarf að vera tilbúinn að veita þjóðinni þennan rétt og jafnvel í andstöðu við ríkisstjórn og Alþingi og jafnvel í andstöðu við alla sína stuðningssveit,“ sagði Ólafur Ragnar.

Ólafur Ragnar á Bessastöðum á sínum tíma.
Ólafur Ragnar á Bessastöðum á sínum tíma. mbl.is/Golli

Ólafur sagði að forsetinn væri höfuð ríkisins og sá eini sem væri endanlega ábyrgur fyrir því að lýðveldið hefði ríkisstjórn. Ólafur sagðist sjálfur líkt og forverar hans hafa þurft að glíma við það verkefni.

„Þegar menn ganga að kjörborðinu þá verða menn að hafa það í huga að það er ekki aðeins verið að treysta einstaklingi fyrir málskotsréttinum. Það er líka verið að treysta einstaklingi fyrir því að geta séð lýðveldinu fyrir ríkisstjórn ef flokkarnir bregðast því hlutverki á Alþingi að geta náð saman um það verkefni.“

Lýðræðislegur réttur í gegnum málskotsréttinn

Hann sagði að þegar þjóðin gengur að kjörborðinu þá verður hún að hafa það í huga að það sé verið að velja einstakling sem geti þurft á því að halda á örlagatímum að sitja ekki á friðarstóli heldur þurfa að taka óþægilegar ákvarðanir til að tryggja lýðræðislegan rétt þjóðarinnar í gegnum málskotsréttinn.

Sagan sýni að forsetinn þurfi ekki alltaf að koma úr heimi stjórnmálanna og allir forsetar lýðveldisins hafi þurft að grípa til sinna ráða.

„Enginn veit fyrir fram hvenær þær stundir koma að ákvarðanir forsetans geta skipt sköpum fyrir örlög þjóðarinnar,“ sagði Ólafur Ragnar enn fremur í viðtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert