Flokkur fólksins málsvari „gleymda fólksins“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Eggert Jóhannesson

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og jafnframt þingmaður, kvaðst þreytt á að hlusta á þann söng sem ómaði á eldhúsdagsumræðum í kvöld. Hún sagði engan hafa misst af því hvernig ástandið væri í samfélaginu en þrátt fyrir það létu margir þingmenn eins og ekkert væri. Flokkur fólksins væri rödd og málsvari gleymda fólksins. 

Inga telur tvær þjóðir búa í landinu og að gjá sé á milli þeirra. Á öðrum bakkanum búi þeir sem allt eiga en á hinum búi þeir sem ekkert eiga. Flokkur fólksins vilji byggja brú yfir þessa gjá en ríkisstjórnin hafi ekki rétt fram marga steina til að byggja þá brú.

Inga talaði um mannauðinn sem aldrei fengi að blómstra og spurði hvernig stæði á því að 34% drengja útskrifaðist eftir 10 ára skólagöngu nánast ólæsir.

Flokkur fólksins mælti á tímabili fyrir 350.000 kr. frítekjumarki en það hlaut ekki hljómgrunn á þinginu og Inga gagnrýndi að það hafi ekki einu sinni verið hlustað á hvernig flokkurinn hefði í hyggju að fjármagna þessa breytingu. 

Spillinguna segir Inga vera áþreifanlega og að sérhagsmunir og græðgisvæðing ráði ríkjum hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert