Ráðinn aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf

Heiðmar Felixson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf í Þýskalandi.
Heiðmar Felixson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf í Þýskalandi. Ljósmynd/Hannover-Burgdorf

Heiðmar Felixson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari þýska handknattleiksliðsins Hannover-Burgdorf. Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í dag.

Heiðmar, sem er 44 ára gamall, verður aðstoðarþjálfari Christian Prokop en Heiðmar þekkir vel til hjá félaginu eftir að hafa leikið með því um árabil. 

Hann hefur haft umsjón með þjálfun yngri flokka félagsins frá árinu 2012 en mun nú gegna starfi aðstoðarþjálfara karlaliðsins sem leikur í efstu deild.

„Ég er mjög þakklátur fyrir það traust sem félagið hefur sýnt mér í gegnum árin og ég hlakka mikið til að takast á við þessa áskorun,“ sagði Heiðmar meðal annars í samtali við heimasíðu félagsins.

Hannover-Burgdorf er í þrettánda sæti þýsku 1. deildarinnar með 2 stig eftir fyrstu tvo leiki sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert