Kalmar kynnir Íslendinginn til leiks

Davíð Kristján Ólafsson hefur leikið með Aalesund í þrjú ár.
Davíð Kristján Ólafsson hefur leikið með Aalesund í þrjú ár. Ljósmynd/Aalesund

Sænska knattspyrnufélagið Kalmar staðfesti í dag að vinstri bakvörðurinn Davíð Kristján Ólafsson væri kominn til liðs við það frá Aalesund í Noregi.

Davíð er 26 ára gamall og hefur leikið með Aalesund undanfarin þrjú ár, eitt tímabil í úrvalsdeildinni og tvö í B-deildinni, en hann tók þátt í að koma liðinu aftur upp á síðasta ári eftir ársdvöl utan úrvalsdeildarinnar.

Hann lék áður með Breiðabliki og spilaði 81 leik með Kópavogsliðinu í úrvalsdeildinni á árunum 2014 til 2018.

Davíð er með íslenska landsliðinu í Antalya í Tyrklandi þessa dagana og gæti spilað gegn Úganda í dag en hann á að baki tvo A-landsleiki fyrir Íslands hönd og sex leiki með yngri landsliðunum.

Samningur Davíðs við Kalmar er til þriggja ára, eða til loka tímabilsins 2024.

Kalmar endaði í sjötta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Félagið hefur ekki verið með íslenskan leikmann í karlaliði sínu í 33 ár, eða síðan Hafþór Sveinjónsson lék með liðinu árið 1989. Með kvennaliði Kalmar leika hinsvegar þær Hallbera Guðný Gísladóttir og Andrea Thorisson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert