Frábær dagur hjá Íslendingunum á NM - Tvö Íslandsmet féllu

Irma Gunnarsdóttir sló Íslandsmet í þrístökki í dag.
Irma Gunnarsdóttir sló Íslandsmet í þrístökki í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslensku keppendurnir á Norðurlandamótinu í frjálsum íþróttum létu heldur betur til sín taka á seinni keppnisdegi mótsins sem haldið er í Kaupmannahöfn þessa helgina.

Tvö Íslandsmet voru sett í dag. Kolbeinn Höður Gunnarsson, FH, setti nýtt Íslandsmet í 200 metra hlaupi þegar hann hljóp á tímanum 20,91 sekúndu sem skilaði honum í 3. sæti í dag og sló hann Íslandsmet sitt sem hann setti 17. mars 2017 þegar hann hljóp á tímanum 20,96 sekúndum. 

Þá sló Irma Gunnarsdóttir, FH, Íslandsmetið í þrístökki þegar hún stökk 13,40 metra og endaði hún í 4. sæti í dag en hún sló 26 ára gamalt met Sigríðar Önnu Guðjónsdóttur, HSK, sem stökk 13,18 metra árið 1997.

Sindri Hrafn Guðmundsson, FH, endaði í 1. sæti í spjótkasti með kasti upp á 76,40 metra. Það var tvöfaldur íslenskur sigur í spjótkasti því Dagbjartur Daði Jónsson, ÍR, endaði í 2. sæti með kasti upp á 75,38 metra.

Guðni Valur Guðnason, ÍR, vann kringlukastið með kasti upp á 63,41 metra og Mímir Sigurðsson, FH, varð í þriðja sæti í sömu grein með kasti upp á 54,81 metra.

Daníel Ingi Egilsson, FH, sem vann þrístökk keppni karla í gær, endaði í 2. sæti í langstökki í dag en hann stökk lengst 7,53 metra.

Þá endaði Guðrún Jóna Bjarnadóttir, ÍR, í 5. sæti í 200 metra hlaupi en hún hljóp á tímanum 23,98 sekúndum.

Vigdís Jónsdóttir, ÍR, lenti í 8. sæti í sleggjukasti en hún kastaði 61,26 metra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert