26 milljarðar safnast handa Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Kosningateymi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og landsnefnd Repúblikanaflokksins segjast hafa safnað 207,5 milljónum bandaríkjadala, eða um 26 milljörðum króna, síðan forsetakosningunum lauk í síðasta mánuði.

Fjármagnið á að nota í lögsóknir vegna sigurs demókratans Joe Bidens í kosningunum, að sögn BBC

Trump hefur neitað að viðurkenna ósigur sinn og heldur því fram, án nokkurra sannana, að Biden hafi sigrað vegna þess að brögð hafi verið í tafli.

Á sama tíma hefur teymi Bidens safnað 112 milljónum dollara, eða um 14 milljörðum króna.

Joe Biden.
Joe Biden. AFP

Í herferð að loknum forsetakosningunum voru tölvupóstar sendir á stuðningsmenn Trumps þar sem þeir voru beðnir um peningastyrk í „opinberan kosningavarnarsjóð“ til að „vernda úrslitin og halda baráttunni áfram eftir kjördaginn“.

Biden hlaut 306 kjörmenn á móti 232 kjörmönnum Trumps og hlaut Biden því mun fleiri en þá 270 sem þörf er á til sigurs. Biden hlaut sömuleiðis um sjö milljónum fleiri atkvæði en Trump.

Biden mun sverja embættiseið sinn 20. janúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert