Enski boltinn

„Drukkum allt áfengið í Manchester“

Sindri Sverrisson skrifar
Kevin De Bruyne fagnaði sínum fimmta Englandsmeistaratitli á meðan að Kalvin Philipps fagnaði sínum fyrsta.
Kevin De Bruyne fagnaði sínum fimmta Englandsmeistaratitli á meðan að Kalvin Philipps fagnaði sínum fyrsta. Getty/Michael Regan

Pep Guardiola var nokkuð ánægður með lærisveina sína í Manchester City í gærkvöld, þrátt fyrir 1-1 jafntefli við Brighton, í ljósi þess að þeir hefðu þremur dögum áður „klárað allt áfengið í Manchester-borg“.

City-menn urðu Englandsmeistarar þriðja árið í röð á laugardaginn, þegar Arsenal tapaði fyrir Nottingham Forest, og fengu verðlaun sín afhent eftir sigurleik gegn Chelsea á sunnudag.

City átti þá enn eftir frestaðan leik við Brighton og svo leik við Brentford í lokaumferðinni næsta sunnudag, en Guardiola gaf að sjálfsögðu grænt ljós á það að leikmenn fögnuðu ærlega á sunnudag.

Það gæti hafa haft sín áhrif í 1-1 jafnteflinu við Brighton í gær, þó að Guardiola hafi sjálfur tekið því rólega á sunnudagskvöldið.

„Klukkan 22.30 var ég kominn upp í rúm með konunni minni. Ég var alveg búinn á því. Ég horfði á Match of the Day og svo svaf ég eins og ungabarn. En ég veit að leikmennirnir gerðu það sem þeir áttu að gera. Þegar maður vinnur ensku úrvalsdeildina þá verður maður að fagna. Það gerðu þeir með fjölskyldum sínum, og nutu þess vel,“ sagði Guardiola.

Leikmenn fengu að taka því rólega næstu tvo daga og Guardiola vonaðist til þess að þeir næðu að safna orku fyrir leikinn við Brighton.

„Ég var svolítið áhyggjufullur um að við yrðum langt frá því sem við höfum verið að gera síðustu fjóra, fimm, sex mánuði. Við drukkum allt áfengið í Manchester fjörutíu tímum áður. En liðið var til staðar og ég er mjög ánægður. Ég vil nefnilega ekki að liðið falli eitthvað niður fyrir úrslitaleikina í bikarnum og Meistaradeild Evrópu. Við sýndum af hverju við erum besta lið Englands. Ég er mjög ánægður með það hvernig við erum enn sem lið eftir að hafa orðið meistarar,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×