Missir af EM

Donny van de Beek getur ekki tekið þátt með Hollandi …
Donny van de Beek getur ekki tekið þátt með Hollandi á EM vegna meiðsla. AFP

Donny van de Beek, sóknarmaður Manchester United og hollenska landsliðsins í knattspyrnu, verður ekki með Hollandi á Evrópumótinu sem hefst á föstudaginn. Þetta staðfesti hollenska knattspyrnusambandið í morgun.

Van de Beek er að glíma við meiðsli og verður ekki búinn að jafna sig áður en mótið hefst en Holland leikur í C-riðli mótsins ásamt Úkraínu, Austurríki og Norður-Makedóníu.

Þetta er enn eitt áfallið fyrir hollenska liðið sem verður án fyrirliða síns Virgils van Dijks á mótinu en van Dijk skaddaði liðbönd í hné í leik gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í október á síðasta ári.

Van de Beek hefur sjálfur átt erfitt tímabil með United eftir að hafa gengið til liðs við enska félagið frá Ajax síðasta sumar en hann byrjaði einungis fjóra leiki í ensku úrvalsdeildinni á nýliðnu tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert