Kristján orðinn sá þriðji besti

Kristján Viggó Sigfinnsson á Meistaramóti Íslands á dögunum.
Kristján Viggó Sigfinnsson á Meistaramóti Íslands á dögunum. mbl.is/Kristvin Guðmundsson

Kristján Viggó Sigfinnsson, hástökkvarinn efnilegi úr Ármanni, náði sínum besta árangri utanhúss um helgina þegar hann stökk 2,15 metra og sigraði á ungmennamótinu Bauhaus Junioren-Gala í Mannheim í Þýskalandi.

Kristján, sem er 19 ára, keppti þar í flokki U20 ára. Hann átti áður best utanhúss 2,13 metra sem hann náði fyrir þremur árum. Með þessu stökki jafnaði hann þriðja besta árangur Íslendings í greininni frá upphafi. Aðeins Einar Karl Hjartarson, 2,25 metrar árið 2001, og Einar Kristjánsson, 2,16 metrar árið 1992, hafa stokkið hærra utanhúss og Gunnlaugur Grettisson stökk 2,15 metra árið 1988.

Kristján hefur hinsvegar best farið yfir 2,20 metra innanhúss og er þar næstbestur á eftir Einari Karli sem stökk 2,28 metra árið 2001.

Eva María Baldursdóttir frá Selfossi varð fimmta í hástökki stúlkna á mótinu og stökk 1,76 metra.

Arndís Diljá Óskarsdóttir úr FH varð sjötta í spjótkasti en hún kastaði 44,18 metra.

Þá náð Glódís Edda Þuríðardóttir úr KFA sínum besta árangri á árinu þegar hún hljóp 100 m grindahlaup á 14,33 sekúndum og Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson úr Ármanni náði sínum besta árangri þegar hann hljóp 100 metra á 11 sekúndum sléttum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert