Stærsta heimatap í sögu NBA – Doncic í góðum hópi

Luka Doncic komst í góðan hóp í nótt.
Luka Doncic komst í góðan hóp í nótt. AFP

Hún var nokkuð söguleg síðasta nótt í NBA-deildinni í körfuknattleik. Indiana Pacers vann þá 57 stiga sigur á Oklahoma City Thunder, sem er stærsta heimatap í sögu deildarinnar. Luka Doncic náði svo sögulegri þrefaldri tvennu.

Indiana vann 152:95 sigur í Oklahoma, og hefði hann getað verið enn stærri. Raunar daðraði Indiana við stærsta sigur sögunnar í NBA-deildinni enda komst liðið mest 67 stigum yfir í gær, 149:82, seint í leiknum.

Stærsti sigurinn í sögu deildarinnar kom árið 1991 þegar Cleveland Cavaliers vann Miami Heat með 68 stigum á heimavelli, 148:80. Það vill svo til að þessi lið mættust einmitt í nótt en nú vann Miami.

Domantas Sabonis hjá Indiana fór á kostum og var kominn með þrefalda tvennu í hálfleik. Endaði hann með 26 stig, 19 fráköst og 14 stoðsendingar.

Slóveninn í sögubækurnar

Slóveninn knái Luka Doncic komst í fámennan en góðmennan hóp þegar hann náði frábærri þrefaldri tvennu í naumum 125:124 sigri Dallas Mavericks gegn Washington Wizards.

Hann varð aðeins fjórði leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar til þess að ná þrefaldri tvennu sem innihélt 30 stig og 20 stoðsendingar. Endaði hann með 31 stig, 20 stoðsendingar og 12 fráköst.

Einu þrír leikmennirnir sem höfðu náð þessu afreki á undan honum voru þeir Oscar Robertson, Magic Johnson og Russell Westbrook.

Westbrook leikur einmitt með Washington og átti sannkallaðan stórleik. Hann náði tvöfaldri tvennu; skoraði 42 stig, tók 10 fráköst og gaf níu stoðsendingar að auki.

Alls fóru 10 leikir fram í NBA-deildinni í nótt.

Öll úrslit næturinnar:

Oklahoma – Indiana 95:152

Dallas – Washington 125:124

Cleveland – Miami -107:124

Orlando – Memphis 112:111

Minnesota - New Orleans 136:140

Utah – Toronto 106:102

LA Clippers – Denver 104:110

Atlanta – Toronto 108:97

Houston – Golden State 87:113

Charlotte – Detroit 107:94

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert