Þægilegur sigur Íslands í fyrsta leik á EM

Ísland vann sterkan 28:24 sigur á Portúgal í fyrsta leik liðanna í B-riðli EM í handknattleik karla í Búdapest í Ungverjalandi í kvöld. Íslenska liðið var sterkari aðilinn nánast allan leikinn og sigurinn því afar verðskuldaður.

Leikurinn fór rólega af stað og kom fyrsta mark Íslands ekki fyrr en eftir tæplega sex mínútna leik þegar Aron Pálmarsson jafnaði í 1:1 með alkunnri sleggju.

Talsvert jafnræði var með liðunum fyrri hluta fyrri hálfleiks en í kjölfar þess að Portúgal jafnaði metin í 7:7 náði Ísland betri og betri tökum á leiknum og skoraði til að mynda næstu þrjú mörk.

Staðan því orðin 10:7 og náði Ísland að halda tveggja og þriggja marka forystu það sem eftir lifði hálfleiks.

Staðan var 12:10 þegar afar skammt var eftir af fyrri hálfleik en íslenska liðið kom sér í virkilega góða stöðu fyrir síðari hálfleikinn með því að skora tvívegis áður en flautað var til leikhlés.

Ísland náði því fjögurra marka forystu í fyrsta sinn í leiknum og það var um seinan fyrir Portúgal að halda í aðra sókn. Staðan 14:10 í hálfleik.

Í síðari hálfleik var íslenska liðið áfram við stjórn og náði nokkrum sinnum sex marka forystu.

Undir lokin sótti Portúgal aðeins á og náði að laga stöðuna. Fjögurra marka sigur Íslands var þó aldrei í hættu og lokatölur 28:24.

Vörn íslenska liðsins var afar sterk allan leikinn og þá var sóknarleikurinn það sömuleiðis þar sem Gísli Þorgeir Kristjánsson olli portúgölsku vörninni miklum erfiðleikum með svakalegri snerpu sinni og tíðum gegnumbrotum.

Sigvaldi Björn Guðjónsson var markahæstur Íslendinga með fimm mörk en dreifing markanna var með besta móti hjá íslenska liðinu þar sem Aron Pálmarsson fyrirliði, Bjarki Már Elísson og Gísli Þorgeir skoruðu allir fjögur mörk.

Björgvin Páll Gústavsson varði þrjú skot í marki Íslands en lengi vel þurfti hann ekkert að verja í fyrri hálfleiknum þar sem sterk vörn Íslands varð þess valdandi að Portúgal tapaði miklum fjölda bolta í sókninni.

Í síðari hálfleik kom Viktor Gísli Hallgrímsson svo sterkur inn og varði fjögur skot.

Markahæstir hjá Portúgal voru Rui Silva og Victor Iturriza, báðir með fjögur mörk.

Langbesti leikmaður Portúgals í leiknum var hins vegar Gustavo Capdeville, sem varði níu skot í marki liðsins.

Portúgal 24:28 Ísland opna loka
60. mín. Leonel Fernandes (Portúgal) skoraði mark Fernandes brýst sömuleiðis í gegn. Hálf mínúta fyrir Ísland að ná einu marki til viðbótar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert