Veigamikill þáttur í menningunni

Haraldur Þór Egilsson safnstjóri með kaffibolla í hendi og sýningarblaðið …
Haraldur Þór Egilsson safnstjóri með kaffibolla í hendi og sýningarblaðið fyrir framan sig. mbl.is/Margrét Þóra

„Ég er ekki alinn upp á Akureyri en hef ávallt haft á tilfinningunni að Akureyri væri tónlistarbær. Það kom mér því á óvart að öðrum fannst það ekki! Mitt minni náði samt bara til Ingimars Eydal, Helenu og Finns, Skriðjökla, Baraflokksins, Kristjáns, Hvanndalsbræðra og 200.000 naglbíta. Þegar ég fluttist til Akureyrar kynntist ég stórri flóru fjölbreyttrar tónlistar og er góðkunningi Græna hattsins. Þessi sýning er svolítið mitt hugarfóstur,“ segir Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri, þar sem nú stendur yfir sýningin „Tónlistarbærinn Akureyri“.

Auk sýningarinnar var ráðist í útgáfu á efnismiklu 72 síðna blaði þar sem sögu tónlistar í höfuðstað Norðurlands eru gerð ítarleg skil. Skapti Hallgrímsson skrifaði texta og sá um útgáfu þess. Alla fimmtudaga í sumar verður í boði lifandi leiðsögn um sýninguna og hefst hún klukkan 14.

Góðar viðtökur

„Viðtökur hafa verið mjög góðar, fólk er ánægt og margir hafa tengingu við eitthvað sem sjá má á sýningunni,“ segir Haraldur. Hugmyndin að sýningunni kviknaði fyrir fjórum árum og upphaflega var ætlunin að búa til sýningu um tónlist í Eyjafirði.

Litrík jakkaföt Ingva Jóns í HH-kvintettinum og kjóll Helenu Eyjólfsdóttur …
Litrík jakkaföt Ingva Jóns í HH-kvintettinum og kjóll Helenu Eyjólfsdóttur eru meðal gripa á sýningunni.

„Þegar við fórum að skoða efnið var ljóst að við yrðum að sníða okkur þrengri stakk, umfangið með Eyjafjörð allan undir var of mikið. Þá töldum við að tónlist á Akureyri yrði mátulega stór rannsókn fyrir okkur að ráðast í. Annað kom hins vegar á daginn. Tónlistarlíf á Akureyri í gegnum tíðina er einfaldlega of viðamikið til að gera því skil í einu blaði eða einni sýningu.“

Tónlist hafi skipað veigamikinn sess í menningarlífi á Akureyri frá því að bærinn byggðist upp á 19. öld. Tónlistarlífið nú um stundir sé þróttmikið og umtalsverð breyting hafi orðið á öllu umhverfi til tónlistariðkunar. „Þannig þarf organistinn ekki lengur að koma með orgelið í farteskinu, líkt og í eina tíð. Hér eru tónlistarskólar, tónleikahús og fólk sem hefur atvinnu af því að leika tónlist. Tónlist sem nær langt út yfir bæjarmörkin,“ segir Haraldur.

Nánar í Morgunblaðinu fimmtudaginn 9. júlí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert